Færsluflokkur: Menning og listir

Herräng... vá maður!

Ég hef orðið fyrir opinberun: Það geta allir dansað og allir ættu að læra að dansa. Ef allir dönsuðu þá væri ekkert stríð í heiminum. KENNUM STJÓRNMÁLAMÖNNUM AÐ DANSA!

Meira þegar ég kem heim.


Sumarbúðir

Ég fór aldrei í sumarbúðir sem krakki. Líklega hef ég aldrei beðið þess bætur. En núna gefst mér tækifæri á að bæta mér upp það sem ég fór á mis við í æsku. Loksins fæ ég að fara í sumarbúðir. Þær eru þó hvorki í Kaldárseli né Vaglaskógi (eða hvar það nú var sem þær voru staðsettar í gamla daga), heldur í smákrummaskuði í Svíþjóð sem enginn þekkir, ekki einu sinni Svíar: Herräng. Athugið að til að nafnið skiljist í Stokkhólmi þarf að bera það fram með sænskum hreim, sem kemur sjálfkrafa með því að leggja áherslu á bæði atkvæðin.

P1010058

Eins og sést á þessari mynd eru þetta engar venjulegar sumarbúðir. Þetta eru DANSbúðir, þar sem aðallega er dansað Lindy Hop, en einnig nokkrir aðrir óæðri dansar. Og sjálfur Frankie Manning verður á staðnum, en hann er einna elstur í hettunni á þessu sviði. Hann er fæddur árið 1914 og er 93 ára á þessu myndbandi.

 

Að lokum eru hér skilaboð til nágranna minna: Ekki týna ykkur í dagdraumum, húsið mitt verður EKKI autt á meðan ég er í burtu! Angry


Uppgerð

Hér í þessu húsi er stunduð mikil uppgerð. Gallinn er sá að það er margt gert upp í einu og húsið því eins og eftir sprengjuárás. Þannig hefur það verið síðastliðin 8 ár eða svo og ástandið eiginlega orðið eðlilegt. Hvað ætti ég líka að gera ef ég ætti ekkert eftir að gera upp?

Eldhúsið var bráðnauðsynlegt að gera upp frá upphafi. Þegar ég keypti efri hæðina var þar ekkert nema eldavél, vaskur og IKEA felliborð. Enginn eldhúsbekkur. Því var snarlega kippt í liðinn og pöntuð sérsmíðuð innrétting úr kúlupanil. Borðplássið fékk þó að fjúka, því þó að eldhúsið sé ekki lítið að flatarmáli nýtist það illa vegna fjölda dyragætta, glugga og skorsteina. Síðan var veggfóðrað yfir hræðilegan, GULAN litinn með sætu veggfóðri úr Kistunni og planið alltaf að mála líka skáp sem fylgdi íbúðinni og skorsteininn. En þar sem undirrituð er haldin ægilegri fullkomnunaráráttu varð hún þess vör að málningin á hvoru tveggja var laus og þörf á að fletta henni af. Enn eru skápurinn og skorsteinninn ómálaðir (það eru sko næstum átta ár síðan ég byrjaði á þeim). Ég afrekaði þó að skipta gamla sparslinu í kringum lúguna á skorsteininum út fyrir sveigjanlegra efni í fyrrasumar og fann vel muninn á hitastiginu í íbúðinni allan veturinn á eftir.

Fyrir þremur eða fjórum árum (þetta rennur orðið allt saman fyrir mér) reif ég allt innan úr klósettinu, sem er aðskilið frá baðherberginu upp á gamla mátann. Og þá meina ég ALLT, frá gólfi upp í loft. Klósettið var alltaf fullt af silfurskottum og eitthver ógeðslegur GULUR dúkur á veggjunum og BLEIKUR dúkur á gólfinu. Klósettið fékk líka að fjúka. Síðan flísalagði ég gólf og veggi, eftir að einangrun hafði verið komið fyrir inni í veggjunum, og keypti nýtt klósett með kassann hangandi uppi á vegg. Allt voða fínt, nema ég er ekki enn búin að klára að flísaleggja. En silfurskotturnar eru farnar eitthvert annað.

Síðan byrjaði ég að rífa niður svefnherbergið. Mér datt nefnilega í hug að gera svefnherbergið að borðstofu og borðstofuna að svefnherbergi og stofuna að barnaherbergi. Þetta var eftir að ég keypti neðri hæðina líka. Það var fyrir tveimur árum. Ég reif semsagt gömlu tex-plöturnar niður af veggjunum, hreinsaði innan úr þeim (hversu margir hafa tækifæri til að ryksuga INNAN Í veggjunum hjá sér?!), bætti við timbri og einangrun (húsið er nánast óeinangrað og ofnarnir virka illa á veturna) og byrjaði að negla upp panil.

Á svipuðum tíma ákvað ég að nú væri nóg komið af blautu gólfi í forstofunni og pantaði mér nýja útihurð. Hún varð auðvitað að vera smíðuð eftir gömlum teikningum af húsinu, enda mjög sérstök hurð. Ég þurfti að finna mér smið sem smíðaði gamlar hurðir og það var enginn hægðarleikur. En það tókst að lokum og mér var lofað nýrri hurð í september. Hún kom í febrúar. Enn eru ekki komnir listar í kringum hana.

Hálfu ári síðar, þegar ég byrjaði á gluggaveggnum í borðstofunni, komst ég að því að glugginn var ónýtur og timbrið fyrir neðan hann rakt. Ástæðan var slæleg vinnubrögð. Ég varð því að fá nýjan glugga. Ég ákvað að hætta á að nota sama smið, enda vaxa þessir smiðir ekki á trjánum. Mér var lofað nýjum glugga í júlí. Hann kom í desember. Alveg á réttum tíma.. Í vor tókst mér svo að koma upp panil í kringum hann og þá var bara einn veggur með bera steinullina. Núna loksins fékk ég svo smið til að koma og saga panilinn til í horninu þar sem tveir veggir á efri hæðinni halla aðeins inn og ég treysti mér ekki til að gera það sjálf.

Nú sé ég fram á að geta LOKSINS klárað þennan vegg og byrjað að mála undir glugganum svo ég geti fært ofninn þangað svo ég geti rifið niður síðasta vegginn í herberginu. Þetta er nú farið að hljóma eins og saga um Pétur og köttinn...

Það skal tekið fram að þegar ég flutti inn á efri hæðina voru ekki bara eldhúsið og klósettið GULT heldur líka baðherbergið, svefnherbergið og önnur stofan. Og allt mismunandi GULIR litir. Hver málar heilt herbergi GULT?


Um bloggið

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Höfundur

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Spurt er

Hvernig húsi viltu helst búa í?

Tónlistarspilari

Facto Delafé Y Las Flores Azules - Enero En La Playa

250 dagar til jóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 23400

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband