Heppin!

ÉG ER mjög heppin kona. Ég er í góðu sambandi við fjölskylduna. Ég fékk tækifæri til að mennta mig og notaði það. Ég er í öruggu starfi. Launin gætu að vísu verið hærri, en ég lifi af og hef jafnvel efni á að fara til útlanda af og til. Efnislega skortir mig ekkert. Til þess þarf ég að vísu að vinna eins og þræll. Ég á hús, því ég var svo heppin að hin íbúðin í gamla timburhúsinu þar sem ég keypti fyrst íbúð losnaði á réttum tíma. Ég var heppin að þá voru vextir á húsnæðislánum í lágmarki. Ég var líka heppin að ættingjar mínir gátu aðstoðað mig fjárhagslega. Ég á sjö ára gamlan, heilbrigðan son. Heppin þar. En ég á ekki mann. Óheppin.

Þar sem ég á ekki mann er ansi dýrt fyrir mig að lifa. Það þarf að borga jafnmikið af húsinu og ef ég ætti mann. Það þarf að borga jafnmikið í reikninga, m.a. hita, rafmagn, afnotagjöld RÚV og afborganir af húsnæðislánum og fasteignagjöld eða húsaleigu. Það þarf að eyða jafnmiklu í barnið: föt, mat, lækniskostnað, tómstundir, frístundaheimili, skólamáltíðir, o.s.frv.

Eini kostnaðurinn sem er lægri fyrir einstakling en hjón með barn er símakostnaður og matur. Þó er þessi kostnaður ekki helmingi lægri eins og sumir gætu freistast til að halda. Það þarf að borga fastagjald af símanum, sem er stór hluti upphæðarinnar, og einstaklingur hendir mun oftar mat en hjón þar sem hann þarf mjög oft að kaupa hann í jafnstórum umbúðum. Auk þess er rekstur bifreiðar eilítið lægri, eða sem nemur mismun á notkun einstaklings og hjóna á eldsneyti. Samt er 60% munur á viðmiðunarfjárhæð til framfærslu einstaklings og hjóna, burtséð frá því hvort börn eru á heimilinu eða ekki. Síðan er hægt að fá sérstaka aðstoð við kostnaðinn sem hlýst af að eiga börn.

Þegar barn einstæðs foreldris er í leikskóla fær það einhvern afslátt. Að minnsta kosti í Reykjavík. Það er eitthvað misjafnt eftir sveitarfélögum hvort þau viðurkenna réttlætið í því að láta fjölskyldu sem hefur einfaldar tekjur borga minna fyrir leikskólann en fjölskyldu sem hefur tvöfaldar tekjur. En það er svo skrítið að í Reykjavík var það þannig eftir að nýr meirihluti tók við stjórninni að fyrst lækkuðu leikskólagjöldin um 25% en fjórum mánuðum síðar hækkuðu þau aftur um 8,8%. Þarna glittir nefnilega í hið rétta andlit Sjálfstæðisflokksins. Hvenær hækka leikskólagjöldin næst? Eða þá gjaldið fyrir frístundaheimilin sem einnig hækkaði um áramót?

Þegar barnið hættir í leikskóla og byrjar í grunnskóla myndi maður ætla að kostnaðurinn lækkaði. Skólinn er ókeypis, er það ekki? En kostnaðurinn fyrir einstæða foreldra lækkar ekki. Hann hækkar. Hver er eiginlega ástæðan? Jú, einstæðir foreldrar þurfa nefnilega að borga jafnmikið og hjón fyrir bæði hádegismatinn og frístundaheimilið.

Með öðrum orðum, kostnaðurinn við það þegar barn hættir í leikskóla og byrjar í grunnskóla lækkar um tæp 10% á mánuði, miðað við átta tíma vistun, fyrir hjón með tvöfaldar tekjur, en hækkar um rúm 36% á mánuði fyrir einstætt foreldri með einfaldar tekjur. Ég er einstæð móðir með barn í grunnskóla. Óheppin.

ÞURÍÐUR BJÖRG ÞORGRÍMSDÓTTIR,

varaformaður Félags einstæðra foreldra.

Frá Þuríði Björgu Þorgrímsdóttur:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert líka heppin að fá c. 40% hærri barnabætur sem einstæður foreldri.

Ríkið og sveitarfélög koma til móts við einstæða foreldra á fleiri vegu. Skaffa til að mynda leiguíbúðir á hagstæðum kjörum sem og er stundum boðið til kaupa á MJÖG hagstæðum kjörum. Ég þekki dæmi um það.

Þetta gæti auðvitað verið betra en það gæti líka verið verra. Það sem mér finnst verst er að sumt fólk skráir sig í kerfinu sem einstæður foreldri en eru samt í sambúð og með tekjur hjóna. Það finnst mér svínslegt

Einar Örn Ólafsson (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 23:39

2 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

40% hærri barnabætur jafnast ekki á við önnur laun kæri Einar. Auðvitað gæti allt endalaust verið verra, en Björg er hér að tala um skiptin úr leikskóla yfir í grunnskóla og þann kostnað sem því fylgir. Ég hef reyndar komist að því að það er annað dæmi um slíka hækkun og það gerist bæði hjá einstæðum og sambúðarforeldrum en það er að vera með 2 leikskólabörn og annað byrjar í skóla. Þarna dettur niður systkinaafsláttur og full greiðsla á báðum stöðum tekur við. 

Ps. Auðvitað er ömurlegt til þess að vita að margir misnota kerfið en það á ekki að bitna á þeim einstæðu foreldrum sem hafa enga hjálp aðra en þá sem kerfið býður. Við erum ekki að mala gull á þessari aðstoð...

Laufey Ólafsdóttir, 5.4.2007 kl. 00:36

3 Smámynd: Birgir Elíasson

já þú ert heppin að mörgu leyti því það er tvöfalt dýrara fyrir hjón að ferðast með strætó, fara í bíó, borða á veitingastað eða að fara til tannlæknis. Það er næstum tvöfalt dýrara fyrir hjón að hafa barn á leikskóla heldur en fyrir einstæða foreldra.

Varðandi systkini á leikskóla þá er greitt fullt gjald fyrir yngsta systkini, þess vegna fellur systkinaafsláttur niður hjá því sem HÆTTIR á leikskólanum.

Birgir Elíasson, 5.4.2007 kl. 13:30

4 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Hjón eru líka með tvær tekjur kæri Birgir og því um 2 fullorðna einstaklinga með tekjur að ræða. Börn hafa ekki tekjur en þeim fylgir sami kostnaður, þurfa líka að borga í bíó, strætó o.s.frv. Hvort ætli gangi þar meira á einfaldar eða tvöfaldar tekjur? ...og til að upplýsa þig örlítið þá hefur einstætt foreldri oft ekki efni á að fara út að borða eða fara mikið í bíó nema til að gleðja börnin. Ég tel það persónulega munað að komast í bíó og út að borða. Svo við tölum nú ekki um tannlæknaferðir... Einstæðir foreldrar og börn þeirra fá enga sérmeðferð fyrir tannlæknakostnaði ef þú heldur það.

ps. varðandi systkini á leikskóla var þetta einmitt það sem ég var að segja. Hvað varstu að reyna að leiðrétta? 

Laufey Ólafsdóttir, 5.4.2007 kl. 13:51

5 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Já, Einar Örn, við höfum það svakalega gott á allri aðstoðinni sem við fáum frá ríkinu . Má ég samt minna þig á það að foreldrar í sambúð fá tvöfaldar barnabætur. Fyrir þessar barnabætur getum við kannski veitt börnunum okkar eitthvað sem tveir foreldrar geta veitt börnunum sínum í sameiningu, s.s. tómstundaiðkun eða tannlæknaferðir... Ég get líka sagt þér það að einstæðir foreldrar hafa engan forgang í félagslega kerfinu á ódýrum leiguíbúðum framyfir aðra fjárhagslega illa stadda einstaklinga. Og ég hef aldrei vitað dæmi þess að þeim hafi boðist að kaupa íbúðirnar á sérstaklega góðum kjörum, a.m.k. ekki frekar en öðrum sem eru í svipaðri fjárhagslegri stöðu (hef reyndar ekki heyrt um það heldur).

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 5.4.2007 kl. 14:18

6 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Einmitt Björg. Þetta með að bjóðast að kaupa íbúðirnar á góðum kjörum er algert kjaftæði. E.t.v. hafa komið upp slík dæmi ef viðkomandi íbúð hefur átt að fara á sölu og leigjanda því boðið þetta en þetta er mjög sjaldgæft. Persónulega þekki ég engin dæmi og er þó leigjandi hjá félagsbústöðum sjálf. Ég þurfti NB að bíða í 3 ár eftir íbúð. Er það mikill forgangur?

Laufey Ólafsdóttir, 5.4.2007 kl. 14:29

7 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Jæja, þessi umræða vekur alltaf mikinn ugg hjá vissri tegun af karlmönnum en þeir eru auðvitað alltaf með það á hreinu að við eintæðu mæðurnar vöðum í peningum sem við sóum og erum svo bara að einhverju væli. Óskráður að nafni SValuR setti inn 3 athugasemdir hjá mér á algerlega óviðkomandi stað, sem að mínu mati er mikil vanvirðing því þar var ég að tala um alvarlegt mál.

Alla vega, SValuR togaði þarna tölur úr dimmri holu en gleymdi alveg að taka til greina fyrirbærið TEKJUTENGING sem setur nú heldur betur strik í reikningin. Annað sem hann fleygði fram var að hjón með eitt barn þyrftu 4 herbergja íbúð! Til hvers? Erum við þá að tala um að þau þurfi vinnuherbergi eða eru þetta hjón sem þurfa sitthvort herbergið? Ég þekki mörg hjón sem leyfa sér ekki þann munað nema þau séu því heppnari, eða því tekjuhærri. ...og já, önnur staðreynd: Hjón FÁ hærri vaxtabætur en einstaklingur fyrir íbúð af sömu stærð.  Fyrir utan það þá ER það að fara út að borða munaður og það að fara í bíó er eitthvað sem maður gerir með börnunum til skemmtunar. Sérstaklega þegar maður er í þannig stöðu að hafa engar pabbahelgar þannig að öllum helgum er eytt í að skemmta börnunum. Hvað varðar tannlækniskostnað þá er það ekki bara sykurneysla sem veldur slæmri tannheilsu. Það eru til meðfæddir gallar eins og glerungsgalli og skakkar tennur svo eitthvað sé nefnt. Einnig geta tannskemmdir stafað af skemmdum hálskirtlum og slæmum maga, en magasýrur eru algert eitur fyrir tennur (tala hér af reynslu). Einnig skemmast tennur gjarnan í óléttum konum, enda fá konur í Bretlandi frítt til tannlæknis á meðan á meðgöngu stendur. 

Það gleyma líka greinilega flestir "pointinu" í greininni, sem er kostnaðurinn við að senda barn í grunnskóla. Það er enginn að tala um hann sem slíkan, heldur fara allir að öfundast út í barnabætur og fleira og gleyma að við erum kjarnakonur að ala upp börn án nokkurrar aðstoðar frá hinum aðilanum. Og hana nú!

Laufey Ólafsdóttir, 6.4.2007 kl. 10:30

8 Smámynd: María Guðjóns

Laufey, ekki gleyma því að það er fullt af einstæðum feðrum líka...

María Guðjóns, 6.4.2007 kl. 15:36

9 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Ég hef alls ekki gleymt því, enda þekki ég marga ágæta slíka og á föður sem hefur verið í þeirri stöðu. Það er hinsvegar ekki ráðist á þá eins og ráðist er á okkur mæðurnar. Því miður er það staðreynd.

Laufey Ólafsdóttir, 6.4.2007 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og fimmtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Höfundur

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Spurt er

Hvernig húsi viltu helst búa í?

Tónlistarspilari

Facto Delafé Y Las Flores Azules - Enero En La Playa

245 dagar til jóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband