Færsluflokkur: Ferðalög
Laugardagur, 11. ágúst 2007
Ca l'Antonieta
Ég lofaði ykkur, ekki margt fyrir löngu, að setja inn myndir frá Talamanca. Nú er komið að því að efna það loforð, loksins. Tölvan mín nefnilega bilaði um daginn og þar sem það var ekki harði diskurinn þá fékk ég aðra tölvu í dag á meðan ég bíð eftir minni, með mínum eigin harða diski. Já, svona er nú tæknin orðin fullkomin: harði diskurinn úr, harði diskurinn í, áður en hægt er að telja upp að tíu.
En hér koma nokkrar myndir frá þessu yndislega þorpi í fjöllum Katalóníu og húsið sem við gistum í hét Ca l'Antonieta, Hús Antóníu litlu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 26. júlí 2007
Talamanca, Spáni
Dvölin í hundraðmannaþorpinu Talamanca var í senn afslappandi og ánægjuleg. Ég get virkilega mælt með afslöppunarferð í þetta miðaldaþorp, en fyrstu sögur sem fara af byggð þar eru frá um 960. Ég segi afslöppunarferð, því það er ekki mikið við að vera þar. Það er torgið þar sem barinn er. Þar er allt fullt af fólki fyrir utan um kaffileytið, karlarnir að drekka vermút og spila dómínó, konurnar að gera eitthvað annað. Þegar ég segi "fullt af fólki" þá á ég við svona fjögur eða fimm borð sem fólk raðar sér í kringum. Svo er það búðin við hliðina, en hún var opnuð fyrir um mánuði síðan, þar er líka hægt að sitja fyrir utan og drekka kaldan bjór eða kaupa sér vínflösku á eina eða tvær evrur og þjóra. Þó að flest sé dýrara þar en í súpermarkaðnum í Barselóna þá er bjórinn ódýrari en á barnum og vinsælt að kaupa hann þar og setjast niður fyrir utan.
Reyndar er allt frekar dautt alla vikuna, enda margir sem búa í Barselóna og koma heim yfir helgina. Eða eiga jafnvel sumarhús þar og skreppa uppeftir um helgar. Um helgar lifnar þannig aðeins yfir mannlífinu. Núna um helgina var reyndar stórviðburður. Á hinu torginu, þessu við kirkjuna, spilaði Simfóníuhljómsveit unga fólksins í Barselóna. Bókstaflega allir fóru að hlusta, og jafnvel þótt maður væri bara á svölunum heima hjá sér þá heyrði maður nánast allt sem fram fór, sama hvar í þorpinu maður bjó. Ég fór að hlusta. Úff, ekki var hún nú beysin. Allt frekar vanstillt og hljómaði falskt. Eiður Smári Guðjohnsen kvartaði víst yfir agaleysi í fótboltaliðinu sínu, Barselóna, um daginn. Það var auðheyrt að agaleysið er víðar en í fótboltanum.
Annað sem hægt er að gera í Talamanca er að fara í göngutúra. Þeir eru samt allir niður á við, sem þýðir að það þarf að fara upp aftur . Það er hægt að fara niður að á, og svo er hægt að fara niður að á... og líka niður að á... og svo niður að á. Svo er reyndar líka hægt að fara í hina áttina og sjá nokkrar gamlar minjar, t.d. leirofna og vatnsmyllu. En hvert sem maður fer, endar gönguferðin á erfiðri göngu upp í móti.
En íbúðin sem við gistum í var mjög flott, í húsi frá byrjun 18. aldar með metersþykkum, hlöðnum steinveggjum. Það var meira að segja lurkur á stigapallinum sem hefur verið notaður sem lukt í árdaga, svona ef ske kynni að rafmagnið færi... Ég ætla að setja inn myndir um leið og ég fæ þær sendar, bæði af húsinu og þorpinu. Á meðan getið þið skoðað þetta, ef þið hafið áhuga: http://www.calantonieta.tk Það þarf að tvísmella á takkana neðst og svo þarf að fara neðar og smella á þríhyrninginn (spila). Og verðið? Fáránlegt! 25 evrur á mann fyrir nóttina...
Ferðalög | Breytt 27.7.2007 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 17. júlí 2007
Vinir
Eftir aðeins fjóra daga í Barselóna hef ég eignast vini sem vilja allt fyrir mig gera. Þetta eru auðvitað vinir Bjartar, vinkonu minnar til 25 ára (úff, er ég virkilega svo gömul að ég get hafa átt vini í 25 ár? ) sem býr hér og ég er gestur hjá. Það segir sig sjálft, vinir hennar hljóta að vera gott fólk, hvernig er annað hægt? Þeir sem þekkja Björtu vita hvað ég á við.
En semsagt, mamma er á leiðinni hingað og við ætlum að leigja íbúð í 100 manna fjallaþorpi ekki langt frá Barselóna. Roser, eða móðir hennar, ég man ekki hvor, á þessa íbúð sem er í húsi frá byrjun 18. aldar. Þar ætlum við að vera í nokkrar nætur. Í þorpinu er ein búð og einn bar / veitingastaður, og fullt af börnum, skilst mér. Það sem verra er er að það fer engin rúta þangað eða þaðan nema um helgar. Hægt er að taka lest til næsta bæjar, Terrassa, en síðan þarf maður að redda sér þá 25 km sem eftir eru. En hvað haldið þið? Ég sagði áðan að þetta væru vinir sem vildu allt fyrir mig gera. Jú, Roser ætlar að keyra okkur þangað og Sergio ætlar að sækja okkur!
Kæru vinir á Íslandi: Takið ykkur þessa hegðun til fyrirmyndar .
Svo er hér mynd af okkur Erik á ströndinni í Barselóna á sunnudaginn var.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 30. júní 2007
Skotárás
Í gær var maður skotinn í verslanamiðstöð í hverfi í San José. Hann lifði af. Við Erik fórum þarna framhjá í strætó þegar lögreglubílarnir og sjúkrabílarnir voru fyrir utan. Við vorum einmitt stödd í þessu hverfi á þeim tíma sem skotárásin fór fram og ég hafði verið að spá í hvort ég ætti að koma við í verslanamiðstöðinni .
Um daginn fóru 15 hús í viðbót í hvirfilvindi í úthverfi San José, aðeins örfáa kílómetra héðan.
Annars er ég að fara héðan núna eftir nokkra klukkutíma. Mánuður er alveg passlegur tími, ekki of mikið og ekki of lítið. Við höfum lent í heikmiklum ævintýrum, kannski ferðafélagar mínir meira en ég því ég hef upplifað svipaða hluti áður. Við fórum í frumskógarferð Karíbahafsmegin þar sem við óðum læki og böðuðum okkur í hyl undir fossi; við fórum í göngutúr í öðrum frumskógi Kyrrahafsmegin, sáum apa, eðlur og þvottabirni og sveifluðum okkur í trjánum a la Tarzan; tíndum fræ af Guanacaste-tré sem eru seld hér dýrum dómum í skartgripum; við héngum í hengirúmum og slöppuðum af; forðuðum okkur undan köngulóm sem hlupu á vatninu í sundlauginni; fórum á almenningsspítala sem tók fjóra og hálfan klukkutíma, þar af biðum við tæpa tvo tíma eftir lyfjunum; og við Vania blikkuðum eiganda lítillar pool-stofu til að kenna okkur að spila. Hann var mjög góður kennari. Við vorum einu kvenkyns viðskiptavinir hans og þar af leiðandi gátum við aldrei notað klósettið á staðnum því það var ekki gert ráð fyrir konum.
Ég mæli semsagt eindregið með því að ferðast til Kosta Ríka, munið bara að kaupa ykkur krem eða sprey til að draga úr flugnabitum. Fólkið er alúðlegt og verðlagið hagstætt. Það er samt best að fara í júní því þá eru fæstir ferðamenn og verðlagið á hótelum og slíku lægst. Sjáumst á Íslandi!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 28. júní 2007
Veskið mitt!
Þá hefur það loksins gerst sem ég hef verið að bíða eftir alla ferðina: Ég var rænd. Þetta var eiginlega alveg fáránlegt en það eina sem ég ætla að segja um það er eitt gott ráð: Ekki skilja veskið eftir hangandi á sætisarminum í bíó! Auðvitað áttum við að vita þetta en við erum báðar vanar að gera þetta heima, við systir mín, og gerðum það af gömlum vana.
Hins vegar má segja að við höfum verið heppnar því systir mín hugsaði með sér áður en við fórum af stað hvort hún ætti að taka myndavélina með, því að hún notar myndavélatöskuna sem veski, en ákvað að gera það ekki. Það eina sem hún missti voru peningar að jafnvirði um 1400 krónur. Ég hafði skilið gemsann minn eftir heima í hleðslu, annars hefði hann farið líka. Ég missti aðeins meira en hún, eða peninga að jafnvirði um 2500 krónur, visakortin mín og nokkur kort sem aðeins er hægt að nota heima, s.s. bensínkort, gjafakort og afsláttarkort frá Tryggingastofnun. Og reyndar nýja ökuskírteinið mitt, sem ég þarf víst að ná í aftur...
En semsagt, ekkert stórslys varð og ekkert mjög mikilvægt glatað.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 18. júní 2007
Vania, fimmti og síðasti hluti
Hér kemur loksins síðasti hluti sögunnar. Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur undanfarna daga í verslun og fjölskylduveislum, því í gær var feðradagurinn og haldið upp á hann með grillveislu upp í sveit. Svo heppilega vildi til að það var líka 17. júní.
Um eittleytið var hringt frá flugvellinum til að láta vita að vélin færi klukkan þrjú. Ungi maðurinn var kominn aftur og hjálpaði Vöniu á fætur. Nú voru lyfin að hætta að virka svo hún var með fullri meðvitund þótt hún væri máttfarin. Síðan keyrði hann hana á flugvöllinn og þau kvöddust nánast með tárin í augunum.
Flugferðin gekk að óskum þangað til þau komu til Kosta Ríka, en þar var þoka eins og venjulega. Í þetta sinn náði vélin þó að snerta jörð, áður en hún hófst aftur á loft. Óánægjukliður fór um vélina og einhver kallaði: Hondúras! En þá hljómaði rödd flugstjórans í hátölurunum: Kæru farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar. Það er enn þoka í San José en við ætlum samt að reyna aftur að lenda. Vélin sneri við og gerði aðra atlögu. Það tókst og allt ætlaði vitlaust að verða af gleði í farþegarýminu.
Venjan er sú að þegar sjúklingur er í vélinni þá fer hann fyrstur út. Ekki samt í Kosta Ríka. Það er margt undarlegt í Kosta Ríka. Til dæmis hafa göturnar ekki nöfn svo allir eru með pósthólf til að geta fengið póst því heimilisföngin eru svo löng og flókin, svo sem frá apótekinu 100 m í austur og 25 m í suður og einn vinur minn átti heima við stóra appelsínutréð. Vania þurfti sem sagt að bíða þangað til allir farþegarnir voru farnir út úr vélinni og varð vitni að því að hver einn og einasti kvaddi flugstjórann með handabandi, kossi eða faðmlagi.
Loksins kom að því að Vania fékk að stíga á sína ástkæru fósturjörð, ef svo má að orði komast því hún fór auðvitað bara inn í rana. Enn þurfti hún samt að bíða því það var ekki búið að ná í hjólastól. Hann kom þó bráðlega og hún settist í hann. Síðan sagði kvenmannsrödd: Færðu hnén örlítið í sundur, vinan. Ha...? svaraði Vania sem átti erfitt með að fylgjast vel með því sem var að gerast í kringum hana þrátt fyrir að hafa endurheimt að mestu meðvitundina. Færðu hnén örlítið í sundur, vinan, endurtók kvenmannsröddin. Vania þorði ekki annað en að hlýða og færði hnén örlítið í sundur. Um leið og hún gerði það var handfarangrinum skellt niður á milli hnjánna á henni og hjólastóllinn lagði af stað.
Vania hafði ekki hugmynd um hver það var sem ýtti hjólastólnum en eftir nokkrar mínútur spurði viðkomandi hvert þau ættu að fara núna. Vania varð hvumsa og vissi ekki alveg hverju hún ætti að svara. Vissi flugvallarstarfsmaðurinn ekki hvert hann var að fara með hana? Hún leit aftur fyrir sig og sá að þetta var tannlaus, gamall maður. Það endaði með því að hún ákvað að vísa honum til vegar. Hvernig datt þeim eiginlega í hug að senda svona gamlan og hruman mann með sjúkling í hjólastól um allan flugvöll sem hann rataði ekki einu sinni um?
Þau komust á endanum að vegabréfsskoðuninni og þá kom auðvitað í ljós að Vania hafði ekki fengið eyðublaðið sem átti að skila inn þar. Hvar færðu það? spurði aumingja karlinn, sem vissi ekkert um starfið sem hann hafði verið settur í. Vania benti honum á það og hann skildi hana eftir einhversstaðar í borðaflækjunni sem fær fólk til að mynda röð meðan hann hljóp og sótti eyðublaðið. Á meðan þurfti fólk að smeygja sér framhjá henni, oft með erfiðismunum, og hún var pínulítið pirruð yfir því að hafa verið skilin eftir svona fyrir allra fótum.
Við tollinn uppgötvaðist svo að hún hafði líka átt að fá eyðublað til að skila inn þar og nú féllust henni alveg hendur og hún var næstum því farin að gráta. En þar sem þetta var í Kosta Ríka sagði tollvörðurinn bara:Æ, það skiptir engu máli og hún fékk að rúlla í gegn.
Allt gekk þetta upp á endanum og hún komst út úr flugstöðinni og í fangið á mömmu sinni og systur, sem höfðu horft upp á vélina taka á loft aftur eftir að hafa beðið hennar sólarhring lengur en nauðsynlegt var og án þess að vita hversu alvarlega hún væri slösuð því þær höfðu aldrei fengið nákvæmar upplýsingar um hvorki slysið né ástand Vöniu.
Næst: Fréttir af herleysi Kosta Ríka búa.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 16. júní 2007
Veðrið
Ég verð aðeins að trufla framhaldssöguna með fréttum af veðri. Ég hef áður lýst því hversu heppin við höfum verið með veður hérna. Það höfðu verið miklar rigningar og nánast stöðug þoka vikurnar áður en við komum, en nú er bara sólskin og blíða nema þegar skyldurigningin skellur á.
Nema hvað á miðvikudaginn, sama dag og við fórum í einkaklúbb, flatmöguðum við sundlaugina (eini möguleikinn til að komast í sundlaug í bænum er í svona einkaklúbbum) og brunnum í háfjallasólinni, skall á allsvakaleg rigning síðdegis sem varði fram á kvöld. Hér í Alajuela drukknaði einn maður þegar lækur flóði vel yfir bakka sína, og það hérna rétt hjá, og í Cartago, sem er í svona 30 km fjarlægð, gekk yfir hvirfilbylur sem tók þökin af 35 húsum. Enginn slasaðist þó. Daginn eftir gekk hvirfilbylur yfir hverfi í San José, sem er í um 15 km fjarlægð héðan, og eyðilagði 200 hús. Við höfðum verið að spóka okkur í öðru hverfi fyrr um daginn og þangað til fór að rigna.
Ég er nokkuð viss um að það komu engar fréttir af þessu heima...
Ferðalög | Breytt 18.6.2007 kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 15. júní 2007
Vania, fjórði og næstsíðasti hluti
Vania stóð nú allsnakin frammi fyrir þessum unga, myndarlega, ókunnuga manni frá flugvellinum sem hjálpaði henni ofan í baðkarið. Þegar hann var búinn að koma henni þægilega fyrir fór hann að nudda blóðið úr buxunum hennar sem lágu í bleyti í vaskinum. Hann náði því sæmilega úr buxunum en það var verra með nærbuxurnar. Ég held að nærbuxurnar þínar séu ónýtar, sagði hann. Ég verð að fara að kaupa nýjar. Ferðataskan hennar var auðvitað á einhverju flakki um Mið-Ameríku svo hún var ekki með nein aukaföt. Ég fer þegar þú ert búin í baði. Svo ætlaði hann að fara að þvo henni en Vania var nú ekki alveg á þeim buxunum. Ég hlýt að geta þvegið mér sjálf, sagði hún. Og ungi maðurinn fór fram með semingi.
Eftir baðið hjálpaði hann henni síðan upp úr, studdi hana aftur á klósettið, að hennar beiðni, þar sem hún þurfti að gera eitthvað í þessum blæðingum. Ungi maðurinn hefði gert það fyrir hana ef hún hefði ekki þvertekið fyrir það. Síðan studdi hann hana inn í rúm og lagði hana út af. Þótt hún væri rænulítil þá hafði hún áhyggjur af því að það kæmi blóð í rúmið svo hún sagði við hann að líklega væri best að setja handklæði undir. Hann fór og náði í handklæði, sagði henni að lyfta hnjánum aðeins, sem hún gerði með erfiðismunum, lyfti síðan rassinum aðeins upp og smeygði handklæðinu þar undir. Björg, hann sá ALLT! sagði hún við mig seinna. Hann stóð þannig að hann sá alla mína leyndustu líkamshluta.
Síðan fór hann að kaupa nærföt og Vania lá í móki á meðan og reyndi að sofa. Þetta var að morgni dags, 2. júní. Það var dregið fyrir gluggana í herberginu með þykkum gluggatjöldum, svo Vania gerði sér enga grein fyrir hvaða tími dags var. Nokkru seinna kom hann aftur með nærföt og sagðist hafa reynt að finna eitthvað í hennar stærð. Það passaði. En viltu ekki fá eitthvað að borða núna? spurði hann. Það var að vísu ekki það sem var henni efst í huga núna en hún varð að viðurkenna að það væri gott að fá eitthvað að borða núna. Helst vildi hún sofa núna en bað samt um ávexti og súpu. Ungi maðurinn hringdi á herbergisþjónustuna og spurði hvort hægt væri að fá ávexti og súpu. Ávextina var auðsótt mál að fá en það var verra með súpuna. Þeir bjóða því miður ekki upp á súpu í morgunmat, sagði hann við hana þegar símtalinu var lokið. En þeir ætla að athuga hvort þeir geti ekki fundið eitthvað til að búa til súpu úr.
Vania fékk síðan ávexti og súpu og ungi maðurinn hjálpaði henni að borða. Síðan sagðist hann þurfa að fara í sturtu og spurði hvort henni væri ekki sama hvort hann færi í sturtu þarna. Stuttu seinna hringdi síminn. Ungi maðurinn kom fram með handklæði um sig miðjan til að svara. Það var mamma hennar. Það hafði verið hringt til hennar frá flugvellinum í Los Angeles og sagt að dóttir hennar hefði lent í slysi. Mamman fékk auðvitað áfall við þessar fréttir og tókst loks að finna út hvar hún væri stödd og hringdi á hótelið. Þær töluðu saman á meðan ungi maðurinn klæddi sig og síðan fór hann og leyfði Vöniu að sofa.
Ferðalög | Breytt 16.6.2007 kl. 04:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 14. júní 2007
Vania, þriðji hluti
Afsakið mig hvað þetta kemur seint að deginum, en við fórum aðeins út í gærkvöldi og komum seint heim, svona um miðnætti. Ég svaf því frammeftir í dag, til hálf níu...
Læknirinn sem tók á móti henni í Guatemala skoðaði lyfin hennar og bannaði henni í framhaldinu að taka meira af þeim óþverra. Að því búnu var hún borin aftur upp í flugvél þar sem hún var á leiðinni aftur til Kosta Ríka að gera aðra tilraun til að lenda. Þegar á hólminn kom var enn of mikil þoka til að lenda og því var snúið aftur við til Guatemala. Þar áttu allir farþegarnir 145 að fara á hótel yfir nóttina. Vania fór hins vegar með sjúkrabíl á bráðadeildina þar sem hún fékk sprautu. Nú var kominn 2. júní.
Í mókinu af sprautunni mundi hún allt í einu eftir því að hún var á blæðingum. Hún stundi því upp úr sér við lækninn og bað um að henni yrði útvegaður túrtappi. Læknirinn fór og talaði við hjúkrunarkonu sem gerði dauðaleit en fann ekkert nema bindi. Vania þáði það og fékk aðstoð við að setja það á sig.
Allt í kringum hana voru nú karlmannsraddir og hún gerði sér allt í einu grein fyrir því að hún heyrði eina kunnuglega rödd. Það var einhver sem hafði verið með henni frá því hún var borin út úr flugvélinni í seinna skiptið, einhver frá flugvellinum. Nú var þessi ungi maður sendur með hana á hótel. Hann fór með hana í sínum eigin bíl.
Vania hafði enn áhyggjur af blæðingunum og bað hann að koma við í apóteki. Þar sem það var mið nótt var ekki auðvelt að finna opið apótek en loks fannst það nú, næturapótek sem var bara gluggi með rimlum. Hvað vantar þig? spurði ungi maðurinn blíðlega. Mig vantar túrtappa, sagði hún með erfiðismunum. Ungi maðurinn fór í apótekið og ræddi lengi við manninn í afgreiðslunni, sem var heldur ekki alveg viss hvað það var sem Vania vildi. Loks keypti ungi maðurinn eitthvað og sýndi Vöniu. Er það þetta sem þig vantar? sagði hann. Öh, já, þetta er fínt, muldraði hún. Svo lá leiðin upp á hótel.
Ungi maðurinn hjálpaði henni upp á herbergi. Hún átti enn mjög erfitt með að hreyfa sig og var ekki alveg með fullri meðvitund eftir sprautuna og lyfin sem hún tók í flugvélinni. Ég þarf að fara á klósettið, sagði hún og ungi maðurinn fylgdi henni á klósettið. Svo fann hún að hann hneppti frá buxunum hennar og byrjaði að draga þær niður. Henni fannst þetta nú frekar undarlegt en hafði ekki orku til að streitast á móti. Sestu á klósettið, sagði hann, afar ljúflega. Síðan dró hann af henni buxur og nærbuxur og henti bindinu. Þú þarft að fara í bað, sagði hann svo og byrjaði að láta renna í bað. Og fötin þín eru öll blóðug, ég legg þau í bleyti hérna í vaskinum. Ha.. já..., stundi Vania.
Framhald á morgun...
Ferðalög | Breytt 15.6.2007 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
Vania, annar hluti
Nú ætla ég að halda áfram með ferðasögu Vöniu, en fyrst verð ég bara að koma með einn brandara frá Robin Williams og Karíbahafinu (seinni hlutinn lesist með Jamaica-hreim):
I do know there is one country that does not have a secret weapons lab in the mountains, that is not planning some horrible weapon of mass destruction: Jamaica. Irie man! Jamaica would never make an atomic bomb! We may make an atomic bong. When the atomic bomb goes off, theres devastation and radiation. The atomic bong goes off, there´s CELEBRATION!
Vania og mexíkanska kona horfðu semsagt á eftir flugvélinni fara án þeirra til Mexíkó. Eftir nokkra bið kom loksins sjúkrabíll og fór með þær á slysadeildina. Þar var Vania sett í liðinn og sprautuð niður með verkjalyfjum. Auk þess fékk hún lyfseðil upp á verkjalyf og eitthvað fleira, sem hún vissi aldrei almennilega hvað var. Upp úr klukkan fjögur um nóttina var farið með þær aftur á flugvöllinn. Þar var þeim sagt að þær ættu að fara á hótel og bíða eftir næstu vél til Mexíkó. Eitthvað fannst Vöniu vera talað niður til sín og starfsfólkið vera ókurteist þannig að hún sagði mexíkönsku konunni að hreyfa sig ekki (hún talaði enga ensku) heldur liggja grafkyrr. Því ef þeir sjá að þú getir hreyft þig taka þeir ekki mark á okkur, sagði hún við hana. Svo byrjaði hún að ausa sig yfir starfsmanninn: Hver borgar hótelið, lyfin og lækniskostnaðinn? sagði hún. Það borgar það einhver, hafðu ekki áhyggjur, var svarið. En Vania sætti sig ekki við það svar. Nei, ég er ekki tryggð og slysið var ykkur að kenna svo ég vil vita hver borgar! Hún ætlaði sko ekki að sætta sig við að farið yrði með þær eins og einhverjar gólfmottur bara vegna þess að væru konur af latneskum ættum. Loks var ákveðið að kalla á yfirmann og þær biðu eftir honum í þrjá klukkutíma. Þegar yfirmaðurinn kom féllst hann á að ábyrgjast það að flugvöllurinn myndi borga allt. Þá fyrst samþykkti Vania að fara á hótel. En nú var farið allt öðrum höndum um þær, þeim var rúllað út í hjólastól, farið í apótek fyrir þær og talað til þeirra eins og þær væru alvöru fólk.
Þetta var að morgni næsta dags, 1. júní. Á hótelinu var ekki mikið sofið fyrir verkjum og auk þess þurfti að fara af stað aftur strax um hádegið þar sem vélin til Mexíkó átti að fara klukkan þrjú síðdegis. Um það leyti tók hún fyrsta skammtinn af lyfjunum.
Í þetta sinn komst hún alla leið út í vél og var meira að segja sett á fyrsta farrými þar sem sætin voru ívið þægilegri en aftar í vélinni, þótt ekki væri hægt að halla þeim mjög mikið aftur. Hún komst alla leið til Mexíkó þar sem hún fór fyrst út úr vélinni, eins og vera ber þegar sjúklingur á í hlut, og tekið var á móti henni með hjólastól og góðu viðmóti. Þarna var henni rúllað upp í næstu vél sem átti að flytja hana heim til Kosta Ríka. Allt virtist núna ganga eins og í sögu, Vania var aðeins steinsnar frá því að komast heim. Illa haldin í bakinu, en hún var þó á leiðinni heim til mömmu.
Í Kosta Ríka var þoka, eins og er svo oft þarna uppi í fjöllum Mið-Ameríku. Þennan dag var hún þó aðeins þéttari en venjulega og í því að farþegarnir fundu vélina beygja heyrðist í hátalaranum: Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar. Því miður er of mikil þoka á flugvellinum í San José til að hægt sé að lenda svo við ætlum að snúa til Guatemala til að taka eldsneyti og reyna síðan aftur. Vonbrigðaandvörp heyrðust um alla vél. Frábært!
En nú var kominn tími fyrir Vöniu að taka næsta lyfjaskammt. Hún gerði það, enda þjáð í bakinu; handleggurinn hafði skánað mikið. Það er stutt flug til Guatemala og þegar vélin var að fara að lenda byrjaði Vania að finna fyrir vanlíðan. Hún svitnaði köldum svita, hana svimaði og henni var óglatt. Í lendingunni leið yfir hana. Hún vaknaði síðan við það að múgur og margmenni (að henni fannst) stumraði yfir henni. Hún var borin út úr vélinni þar sem læknir tók á móti henni ásamt fleiri karlmönnum. Allir voru mjög áhyggjufullir og lögðu sig fram um að sannfæra hana um að allt yrði í lagi.
Framhald á morgun...
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Spurt er
Tónlistarspilari
336 dagar til jóla
Tenglar
Spænska
- Frú Mínerva Málaskóli
Myndir frá Kosta Ríka
Hér eru myndaalbúm með myndum frá Kosta Ríka í júní 2007.
Lindy Hop
Þetta er dansINN!
- Heimasíðan okkar
- Hellzapoppin So you think you can dance!!
- Showdown 2006 Ég get þetta sko alveg...
Myndaalbúm
Bloggvinir
- andreaolafs
- hugdettan
- astar
- bjorkv
- bleikaeldingin
- brylli
- fitubolla
- neytendatalsmadur
- gurrihar
- hallarut
- handtoskuserian
- hlynurh
- jenfo
- jensgud
- johannbj
- jonbjarnason
- hugsadu
- lauola
- larahanna
- mammzla
- mariataria
- manisvans
- svarthamar
- runavala
- soley
- smjattpatti
- jam
- svenni
- toshiki
- truno
- vefritid
- hallormur
- thorgnyr
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar