Tvöfalt heilbrigðiskerfi

Víða um heim viðgengst tvöfalt kerfi í heilbrigðismálum. Annað er ókeypis og hitt ekki. Oft er það svo að maður fær betri þjónustu ef maður borgar fyrir hana. Það á líka við í heilbrigðiskerfinu. Ef þú átt peninga þá færðu betri þjónustu.

Á Íslandi erum við bara með eitt kerfi: Það sem þarf að borga fyrir. Það kostar hátt í 4000 krónur að fara til sérfræðings. Ég hef borgað 9000 krónur fyrir myndatöku af innviðum höfuðs míns. Faðir minn borgaði um daginn 20.000 krónur fyrir hjartarannsókn. Sem betur fer kostar ekkert ennþá að eignast barn.

Að vissu leyti er betra að vera með tvöfalt kerfi en íslenskt kerfi. Maður hefur þó möguleika á ókeypis þjónustu. Hins vegar eru ýmsir gallar á tvöföldu kerfi. Ég hef nokkra reynslu af opinberu heilbrigðiskerfi á Spáni og í Mið-Ameríkuríkinu Kosta Ríka. Í báðum löndum er tvöfalt kerfi og opinbera kerfið er ókeypis. Lyfin á Spáni eru hræódýr og í Kosta Ríka eru þau ókeypis á spítulunum. Frábært, ekki satt? Jú, og nei.

Reynslan að fara á opinbera spítala á stað þar sem einnig er einkarekið heilbrigðiskerfi er ekki mjög skemmtileg. Biðin er skelfilega löng og þjónustan ópersónuleg. Manni líður eins og fiski á færibandi. Bíða í þessari röð, setjast og bíða, inn út, læknirinn lítur varla á mann, bíða svolítið meira, inn þarna, rekinn öfugur út. Á Spáni þurfti ég að tala við tvo lækna, annar spurði mig út úr og hinn gaf mér lyfseðil. Sá var reyndar svo mikið að flýta sér að hann gerði mistök á lyfseðlinum.

Er þetta það sem við viljum hér? Eitt kerfi þar sem fólk fær almennilega og persónulega þjónustu af því að það borgar fyrir hana og annað ókeypis þar sem þarf að afgreiða fólk hratt af því að flestir fara þangað? Á Íslandi er öll heilbrigðisþjónusta góð og persónuleg, nema kannski helst á bráðadeildinni, þar sem oft er yfirfullt af sjúklingum. Enda þurfum við að borga fyrir hana. Við höfum semsagt ekkert val.

En ég vil ekki hafa val. Ég vil geta reitt mig á að ég hafi alltaf efni á að fara til læknis. Og ég vil líka geta reitt mig á að ég fái persónulega þjónustu. Eina leiðin til þess er að hafa einfalt heilbrigðiskerfi, ókeypis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Einmitt! Heilbrigðiskerfið á ekki að vera rekið eins og gróðafyrirtæki. Þetta er öryggisnet sem Á að vera til staðar fyrir alla alltaf. Ég man hvað ég varð yfir mig hneyksluð að þurfa að borga fyrir læknisþjónustu þegar ég kom frá Bretlandi eitt árið. Í Bretlandi er einhverskonar þrepakerfi, þ.e. eitt kerfi en þú borgar bara ef þú ert yfir vissum tekjumörkum eða ert útlendingur og mig minnir að það sé sitthvort gjaldið. Svo eru reyndar sérfræðingar sem þeir sem geta borgað geta leitað til en alla þjónustuna er annars að finna í fría kerfinu. Ég hef góða reynslu af heilbrigðiskerfinu í Bretlandi. Auðvitað má alltaf kvarta yfir einhverju en eftir meðferðina á Íslandi er hitt frábært.

Ástæðan fyrir að það er allt frítt sem sýr að barneignum er vegna þess að sá réttur er varinn af alþjóðasamningum, minnir að það sé í Barnasáttmála SÞ, þarf samt að fletta því upp.

Laufey Ólafsdóttir, 28.9.2007 kl. 09:18

2 identicon

Tryggingastofnun endurgreiddi mér 11 þúsund kr. af þessum 20 þús. Ástæðan fyrir því að hjartaómskoðun er svona dýr - og allt sem hjartalæknar gera - er að þeir hafa ekki náð samkomulagi við Tr.stofnun um gjaldskrá, þ.e. telja sig þurfa að fá meira fyrir hverja aðgerð en stofnunin samþykkir. Það þýðir að læknarnir settu sér sjálfdæmi um gjaldið og stofnunin setur sér sjálfdæmi um endurgreiðsluna. Annars er búið að rústa þessu almannatryggingakerfi með gjaldtöku af sjúklingum og hækka gjaldið síðan æ ofan í æ. Auðvitað á að greiða allt heilbrigðiskerfið með skattfé þannig að það sé frítt þegar á reynir. Þannig er það í Bretlandi og víðar í Evrópu. Tvöfalt kerfi verður aldrei til góðs nema fyrir þá sem hafa efni á að kaupa sér læknisþjónustu í einkakerfinu.

Þorgrímur Gestsson (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 09:40

3 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Það er náttúrlega til skammar að sjúklingar þurfi að punga út fyrir þjónustu og þurfa svo að fá endurgreitt hjá þessari steinaldarstofnun sem Tryggingastofnun er. Það er eins og þeir viti ekki að til er fyrirbæri sem heitir verðbólga, hvað þá að þeir fylgi verðlaginu í þjóðfélaginu.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 28.9.2007 kl. 19:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Höfundur

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Spurt er

Hvernig húsi viltu helst búa í?

Tónlistarspilari

Facto Delafé Y Las Flores Azules - Enero En La Playa

248 dagar til jóla

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 23762

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband