Fimmtudagur, 28. júní 2007
Veskið mitt!
Þá hefur það loksins gerst sem ég hef verið að bíða eftir alla ferðina: Ég var rænd. Þetta var eiginlega alveg fáránlegt en það eina sem ég ætla að segja um það er eitt gott ráð: Ekki skilja veskið eftir hangandi á sætisarminum í bíó! Auðvitað áttum við að vita þetta en við erum báðar vanar að gera þetta heima, við systir mín, og gerðum það af gömlum vana.
Hins vegar má segja að við höfum verið heppnar því systir mín hugsaði með sér áður en við fórum af stað hvort hún ætti að taka myndavélina með, því að hún notar myndavélatöskuna sem veski, en ákvað að gera það ekki. Það eina sem hún missti voru peningar að jafnvirði um 1400 krónur. Ég hafði skilið gemsann minn eftir heima í hleðslu, annars hefði hann farið líka. Ég missti aðeins meira en hún, eða peninga að jafnvirði um 2500 krónur, visakortin mín og nokkur kort sem aðeins er hægt að nota heima, s.s. bensínkort, gjafakort og afsláttarkort frá Tryggingastofnun. Og reyndar nýja ökuskírteinið mitt, sem ég þarf víst að ná í aftur...
En semsagt, ekkert stórslys varð og ekkert mjög mikilvægt glatað.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 20. júní 2007
Herlaust Kosta Ríka
Mér hefur fundist gaman að fylgjast með umræðunni um brottför kanahersins á Íslandi og sjá hvað stjórnmálamenn verða stressaðir yfir því að við stöndum varnarlaus eftir. Þeir stóðu sveittir í utanríkisráðuneytinu og pældu í því hver myndi vilja gera við okkur samning um loftvarnir, eins og það væri eitthvað bráðnauðsynlegt. Hér í Kosta Ríka er enginn her, rétt eins og núna á Íslandi. En þeir eru ekki í NATÓ. Reyndar eru þeir ekki í neinu hernaðarbandalagi. Hvað gera þeir þá til að tryggja öryggi sitt? spyr nú væntanlega einhver.
Kosta Ríka liggur á milli tveggja ríkja sem lengi áttu í borgarastyrjöldum: Panama og Níkaragúa. Það hafði aldrei áhrif á Kosta Ríka. Í báðum þessum löndum og víðast hvar í Mið- og Suður-Ameríku eru hryðjuverkamenn sem ræna og drepa saklausa borgara og ferðamenn. En það er ekki til í Kosta Ríka. Kosta Ríka er friðsamt ríki enda er hér enginn her. Lögreglan gengur að vísu með vopn en þarf sjaldan að beita þeim. Hér er friður og hefur ekki komið til átaka síðan 1948 þegar borgarar gerðu uppreisn vegna forsetakosningasvindls. Það þykir stórviðburður ef einhver er myrtur, rétt eins og heima á Íslandi.
En hvernig tryggja þeir þá öryggi sitt? Jú, í stað þess að gera VARNARsamning við eitt ákveðið ríki hafa þeir gert FRIÐARsamning við heiminn. Þeir segja einfaldlega: Við erum friðsamt ríki og getum ekki varið okkur, svo vinsamlegast látið okkur í friði. EF hins vegar einhverjum vitleysingnum dytti í hug að ráðast á þá, væri það skýrt lögbrot og Sameinuðu þjóðirnar myndu koma þeim til varnar á nóinu.
Er þetta kannski möguleiki sem íslenskir stjórnmálamenn ættu að íhuga??
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 18. júní 2007
Vania, fimmti og síðasti hluti
Hér kemur loksins síðasti hluti sögunnar. Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur undanfarna daga í verslun og fjölskylduveislum, því í gær var feðradagurinn og haldið upp á hann með grillveislu upp í sveit. Svo heppilega vildi til að það var líka 17. júní.
Um eittleytið var hringt frá flugvellinum til að láta vita að vélin færi klukkan þrjú. Ungi maðurinn var kominn aftur og hjálpaði Vöniu á fætur. Nú voru lyfin að hætta að virka svo hún var með fullri meðvitund þótt hún væri máttfarin. Síðan keyrði hann hana á flugvöllinn og þau kvöddust nánast með tárin í augunum.
Flugferðin gekk að óskum þangað til þau komu til Kosta Ríka, en þar var þoka eins og venjulega. Í þetta sinn náði vélin þó að snerta jörð, áður en hún hófst aftur á loft. Óánægjukliður fór um vélina og einhver kallaði: Hondúras! En þá hljómaði rödd flugstjórans í hátölurunum: Kæru farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar. Það er enn þoka í San José en við ætlum samt að reyna aftur að lenda. Vélin sneri við og gerði aðra atlögu. Það tókst og allt ætlaði vitlaust að verða af gleði í farþegarýminu.
Venjan er sú að þegar sjúklingur er í vélinni þá fer hann fyrstur út. Ekki samt í Kosta Ríka. Það er margt undarlegt í Kosta Ríka. Til dæmis hafa göturnar ekki nöfn svo allir eru með pósthólf til að geta fengið póst því heimilisföngin eru svo löng og flókin, svo sem frá apótekinu 100 m í austur og 25 m í suður og einn vinur minn átti heima við stóra appelsínutréð. Vania þurfti sem sagt að bíða þangað til allir farþegarnir voru farnir út úr vélinni og varð vitni að því að hver einn og einasti kvaddi flugstjórann með handabandi, kossi eða faðmlagi.
Loksins kom að því að Vania fékk að stíga á sína ástkæru fósturjörð, ef svo má að orði komast því hún fór auðvitað bara inn í rana. Enn þurfti hún samt að bíða því það var ekki búið að ná í hjólastól. Hann kom þó bráðlega og hún settist í hann. Síðan sagði kvenmannsrödd: Færðu hnén örlítið í sundur, vinan. Ha...? svaraði Vania sem átti erfitt með að fylgjast vel með því sem var að gerast í kringum hana þrátt fyrir að hafa endurheimt að mestu meðvitundina. Færðu hnén örlítið í sundur, vinan, endurtók kvenmannsröddin. Vania þorði ekki annað en að hlýða og færði hnén örlítið í sundur. Um leið og hún gerði það var handfarangrinum skellt niður á milli hnjánna á henni og hjólastóllinn lagði af stað.
Vania hafði ekki hugmynd um hver það var sem ýtti hjólastólnum en eftir nokkrar mínútur spurði viðkomandi hvert þau ættu að fara núna. Vania varð hvumsa og vissi ekki alveg hverju hún ætti að svara. Vissi flugvallarstarfsmaðurinn ekki hvert hann var að fara með hana? Hún leit aftur fyrir sig og sá að þetta var tannlaus, gamall maður. Það endaði með því að hún ákvað að vísa honum til vegar. Hvernig datt þeim eiginlega í hug að senda svona gamlan og hruman mann með sjúkling í hjólastól um allan flugvöll sem hann rataði ekki einu sinni um?
Þau komust á endanum að vegabréfsskoðuninni og þá kom auðvitað í ljós að Vania hafði ekki fengið eyðublaðið sem átti að skila inn þar. Hvar færðu það? spurði aumingja karlinn, sem vissi ekkert um starfið sem hann hafði verið settur í. Vania benti honum á það og hann skildi hana eftir einhversstaðar í borðaflækjunni sem fær fólk til að mynda röð meðan hann hljóp og sótti eyðublaðið. Á meðan þurfti fólk að smeygja sér framhjá henni, oft með erfiðismunum, og hún var pínulítið pirruð yfir því að hafa verið skilin eftir svona fyrir allra fótum.
Við tollinn uppgötvaðist svo að hún hafði líka átt að fá eyðublað til að skila inn þar og nú féllust henni alveg hendur og hún var næstum því farin að gráta. En þar sem þetta var í Kosta Ríka sagði tollvörðurinn bara:Æ, það skiptir engu máli og hún fékk að rúlla í gegn.
Allt gekk þetta upp á endanum og hún komst út úr flugstöðinni og í fangið á mömmu sinni og systur, sem höfðu horft upp á vélina taka á loft aftur eftir að hafa beðið hennar sólarhring lengur en nauðsynlegt var og án þess að vita hversu alvarlega hún væri slösuð því þær höfðu aldrei fengið nákvæmar upplýsingar um hvorki slysið né ástand Vöniu.
Næst: Fréttir af herleysi Kosta Ríka búa.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 16. júní 2007
Veðrið
Ég verð aðeins að trufla framhaldssöguna með fréttum af veðri. Ég hef áður lýst því hversu heppin við höfum verið með veður hérna. Það höfðu verið miklar rigningar og nánast stöðug þoka vikurnar áður en við komum, en nú er bara sólskin og blíða nema þegar skyldurigningin skellur á.
Nema hvað á miðvikudaginn, sama dag og við fórum í einkaklúbb, flatmöguðum við sundlaugina (eini möguleikinn til að komast í sundlaug í bænum er í svona einkaklúbbum) og brunnum í háfjallasólinni, skall á allsvakaleg rigning síðdegis sem varði fram á kvöld. Hér í Alajuela drukknaði einn maður þegar lækur flóði vel yfir bakka sína, og það hérna rétt hjá, og í Cartago, sem er í svona 30 km fjarlægð, gekk yfir hvirfilbylur sem tók þökin af 35 húsum. Enginn slasaðist þó. Daginn eftir gekk hvirfilbylur yfir hverfi í San José, sem er í um 15 km fjarlægð héðan, og eyðilagði 200 hús. Við höfðum verið að spóka okkur í öðru hverfi fyrr um daginn og þangað til fór að rigna.
Ég er nokkuð viss um að það komu engar fréttir af þessu heima...
Ferðalög | Breytt 18.6.2007 kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 15. júní 2007
Vania, fjórði og næstsíðasti hluti
Vania stóð nú allsnakin frammi fyrir þessum unga, myndarlega, ókunnuga manni frá flugvellinum sem hjálpaði henni ofan í baðkarið. Þegar hann var búinn að koma henni þægilega fyrir fór hann að nudda blóðið úr buxunum hennar sem lágu í bleyti í vaskinum. Hann náði því sæmilega úr buxunum en það var verra með nærbuxurnar. Ég held að nærbuxurnar þínar séu ónýtar, sagði hann. Ég verð að fara að kaupa nýjar. Ferðataskan hennar var auðvitað á einhverju flakki um Mið-Ameríku svo hún var ekki með nein aukaföt. Ég fer þegar þú ert búin í baði. Svo ætlaði hann að fara að þvo henni en Vania var nú ekki alveg á þeim buxunum. Ég hlýt að geta þvegið mér sjálf, sagði hún. Og ungi maðurinn fór fram með semingi.
Eftir baðið hjálpaði hann henni síðan upp úr, studdi hana aftur á klósettið, að hennar beiðni, þar sem hún þurfti að gera eitthvað í þessum blæðingum. Ungi maðurinn hefði gert það fyrir hana ef hún hefði ekki þvertekið fyrir það. Síðan studdi hann hana inn í rúm og lagði hana út af. Þótt hún væri rænulítil þá hafði hún áhyggjur af því að það kæmi blóð í rúmið svo hún sagði við hann að líklega væri best að setja handklæði undir. Hann fór og náði í handklæði, sagði henni að lyfta hnjánum aðeins, sem hún gerði með erfiðismunum, lyfti síðan rassinum aðeins upp og smeygði handklæðinu þar undir. Björg, hann sá ALLT! sagði hún við mig seinna. Hann stóð þannig að hann sá alla mína leyndustu líkamshluta.
Síðan fór hann að kaupa nærföt og Vania lá í móki á meðan og reyndi að sofa. Þetta var að morgni dags, 2. júní. Það var dregið fyrir gluggana í herberginu með þykkum gluggatjöldum, svo Vania gerði sér enga grein fyrir hvaða tími dags var. Nokkru seinna kom hann aftur með nærföt og sagðist hafa reynt að finna eitthvað í hennar stærð. Það passaði. En viltu ekki fá eitthvað að borða núna? spurði hann. Það var að vísu ekki það sem var henni efst í huga núna en hún varð að viðurkenna að það væri gott að fá eitthvað að borða núna. Helst vildi hún sofa núna en bað samt um ávexti og súpu. Ungi maðurinn hringdi á herbergisþjónustuna og spurði hvort hægt væri að fá ávexti og súpu. Ávextina var auðsótt mál að fá en það var verra með súpuna. Þeir bjóða því miður ekki upp á súpu í morgunmat, sagði hann við hana þegar símtalinu var lokið. En þeir ætla að athuga hvort þeir geti ekki fundið eitthvað til að búa til súpu úr.
Vania fékk síðan ávexti og súpu og ungi maðurinn hjálpaði henni að borða. Síðan sagðist hann þurfa að fara í sturtu og spurði hvort henni væri ekki sama hvort hann færi í sturtu þarna. Stuttu seinna hringdi síminn. Ungi maðurinn kom fram með handklæði um sig miðjan til að svara. Það var mamma hennar. Það hafði verið hringt til hennar frá flugvellinum í Los Angeles og sagt að dóttir hennar hefði lent í slysi. Mamman fékk auðvitað áfall við þessar fréttir og tókst loks að finna út hvar hún væri stödd og hringdi á hótelið. Þær töluðu saman á meðan ungi maðurinn klæddi sig og síðan fór hann og leyfði Vöniu að sofa.
Ferðalög | Breytt 16.6.2007 kl. 04:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 14. júní 2007
Vania, þriðji hluti
Afsakið mig hvað þetta kemur seint að deginum, en við fórum aðeins út í gærkvöldi og komum seint heim, svona um miðnætti. Ég svaf því frammeftir í dag, til hálf níu...
Læknirinn sem tók á móti henni í Guatemala skoðaði lyfin hennar og bannaði henni í framhaldinu að taka meira af þeim óþverra. Að því búnu var hún borin aftur upp í flugvél þar sem hún var á leiðinni aftur til Kosta Ríka að gera aðra tilraun til að lenda. Þegar á hólminn kom var enn of mikil þoka til að lenda og því var snúið aftur við til Guatemala. Þar áttu allir farþegarnir 145 að fara á hótel yfir nóttina. Vania fór hins vegar með sjúkrabíl á bráðadeildina þar sem hún fékk sprautu. Nú var kominn 2. júní.
Í mókinu af sprautunni mundi hún allt í einu eftir því að hún var á blæðingum. Hún stundi því upp úr sér við lækninn og bað um að henni yrði útvegaður túrtappi. Læknirinn fór og talaði við hjúkrunarkonu sem gerði dauðaleit en fann ekkert nema bindi. Vania þáði það og fékk aðstoð við að setja það á sig.
Allt í kringum hana voru nú karlmannsraddir og hún gerði sér allt í einu grein fyrir því að hún heyrði eina kunnuglega rödd. Það var einhver sem hafði verið með henni frá því hún var borin út úr flugvélinni í seinna skiptið, einhver frá flugvellinum. Nú var þessi ungi maður sendur með hana á hótel. Hann fór með hana í sínum eigin bíl.
Vania hafði enn áhyggjur af blæðingunum og bað hann að koma við í apóteki. Þar sem það var mið nótt var ekki auðvelt að finna opið apótek en loks fannst það nú, næturapótek sem var bara gluggi með rimlum. Hvað vantar þig? spurði ungi maðurinn blíðlega. Mig vantar túrtappa, sagði hún með erfiðismunum. Ungi maðurinn fór í apótekið og ræddi lengi við manninn í afgreiðslunni, sem var heldur ekki alveg viss hvað það var sem Vania vildi. Loks keypti ungi maðurinn eitthvað og sýndi Vöniu. Er það þetta sem þig vantar? sagði hann. Öh, já, þetta er fínt, muldraði hún. Svo lá leiðin upp á hótel.
Ungi maðurinn hjálpaði henni upp á herbergi. Hún átti enn mjög erfitt með að hreyfa sig og var ekki alveg með fullri meðvitund eftir sprautuna og lyfin sem hún tók í flugvélinni. Ég þarf að fara á klósettið, sagði hún og ungi maðurinn fylgdi henni á klósettið. Svo fann hún að hann hneppti frá buxunum hennar og byrjaði að draga þær niður. Henni fannst þetta nú frekar undarlegt en hafði ekki orku til að streitast á móti. Sestu á klósettið, sagði hann, afar ljúflega. Síðan dró hann af henni buxur og nærbuxur og henti bindinu. Þú þarft að fara í bað, sagði hann svo og byrjaði að láta renna í bað. Og fötin þín eru öll blóðug, ég legg þau í bleyti hérna í vaskinum. Ha.. já..., stundi Vania.
Framhald á morgun...
Ferðalög | Breytt 15.6.2007 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Spurt er
Tónlistarspilari
164 dagar til jóla
Tenglar
Spænska
- Frú Mínerva Málaskóli
Myndir frá Kosta Ríka
Hér eru myndaalbúm með myndum frá Kosta Ríka í júní 2007.
Lindy Hop
Þetta er dansINN!
- Heimasíðan okkar
- Hellzapoppin So you think you can dance!!
- Showdown 2006 Ég get þetta sko alveg...
Myndaalbúm
Bloggvinir
-
andreaolafs
-
hugdettan
-
astar
-
bjorkv
-
bleikaeldingin
-
brylli
-
fitubolla
-
neytendatalsmadur
-
gurrihar
-
hallarut
-
handtoskuserian
-
hlynurh
-
jenfo
-
jensgud
-
johannbj
-
jonbjarnason
-
hugsadu
-
lauola
-
larahanna
-
mammzla
-
mariataria
-
manisvans
-
svarthamar
-
runavala
-
soley
-
smjattpatti
-
jam
-
svenni
-
toshiki
-
truno
-
vefritid
-
hallormur
-
thorgnyr
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 23794
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar