Vania, annar hluti

Nú ætla ég að halda áfram með ferðasögu Vöniu, en fyrst verð ég bara að koma með einn brandara frá Robin Williams og Karíbahafinu (seinni hlutinn lesist með Jamaica-hreim): 

“I do know there is one country that does not have a secret weapons lab in the mountains, that is not planning some horrible weapon of mass destruction: Jamaica. “Irie man! Jamaica would never make an atomic bomb! We may make an atomic “bong“. When the atomic bomb goes off, there‘s devastation and radiation. The atomic bong goes off, there´s CELEBRATION!“ 

Vania og mexíkanska kona horfðu semsagt á eftir flugvélinni fara án þeirra til Mexíkó. Eftir nokkra bið kom loksins sjúkrabíll og fór með þær á slysadeildina. Þar var Vania sett í liðinn og sprautuð niður með verkjalyfjum. Auk þess fékk hún lyfseðil upp á verkjalyf og eitthvað fleira, sem hún vissi aldrei almennilega hvað var. Upp úr klukkan fjögur um nóttina var farið með þær aftur á flugvöllinn. Þar var þeim sagt að þær ættu að fara á hótel og bíða eftir næstu vél til Mexíkó. Eitthvað fannst Vöniu vera talað niður til sín og starfsfólkið vera ókurteist þannig að hún sagði mexíkönsku konunni að hreyfa sig ekki (hún talaði enga ensku) heldur liggja grafkyrr. „Því ef þeir sjá að þú getir hreyft þig taka þeir ekki mark á okkur“, sagði hún við hana. Svo byrjaði hún að ausa sig yfir starfsmanninn: „Hver borgar hótelið, lyfin og lækniskostnaðinn?“ sagði hún. „Það borgar það einhver, hafðu ekki áhyggjur“, var svarið. En Vania sætti sig ekki við það svar. „Nei, ég er ekki tryggð og slysið var ykkur að kenna svo ég vil vita hver borgar!“ Hún ætlaði sko ekki að sætta sig við að farið yrði með þær eins og einhverjar gólfmottur bara vegna þess að væru konur af latneskum ættum. Loks var ákveðið að kalla á yfirmann og þær biðu eftir honum í þrjá klukkutíma. Þegar yfirmaðurinn kom féllst hann á að ábyrgjast það að flugvöllurinn myndi borga allt. Þá fyrst samþykkti Vania að fara á hótel. En nú var farið allt öðrum höndum um þær, þeim var rúllað út í hjólastól, farið í apótek fyrir þær og talað til þeirra eins og þær væru alvöru fólk. 

Þetta var að morgni næsta dags, 1. júní. Á hótelinu var ekki mikið sofið fyrir verkjum og auk þess þurfti að fara af stað aftur strax um hádegið þar sem vélin til Mexíkó átti að fara klukkan þrjú síðdegis. Um það leyti tók hún fyrsta skammtinn af lyfjunum.

 

Í þetta sinn komst hún alla leið út í vél og var meira að segja sett á fyrsta farrými þar sem sætin voru ívið þægilegri en aftar í vélinni, þótt ekki væri hægt að halla þeim mjög mikið aftur. Hún komst alla leið til Mexíkó þar sem hún fór fyrst út úr vélinni, eins og vera ber þegar sjúklingur á í hlut, og tekið var á móti henni með hjólastól og góðu viðmóti. Þarna var henni rúllað upp í næstu vél sem átti að flytja hana heim til Kosta Ríka. Allt virtist núna ganga eins og í sögu, Vania var aðeins steinsnar frá því að komast heim. Illa haldin í bakinu, en hún var þó á leiðinni heim til mömmu.

Í Kosta Ríka var þoka, eins og er svo oft þarna uppi í fjöllum Mið-Ameríku. Þennan dag var hún þó aðeins þéttari en venjulega og í því að farþegarnir fundu vélina beygja heyrðist í hátalaranum: „Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar. Því miður er of mikil þoka á flugvellinum í San José til að hægt sé að lenda svo við ætlum að snúa til Guatemala til að taka eldsneyti og reyna síðan aftur.“ Vonbrigðaandvörp heyrðust um alla vél. Frábært!

En nú var kominn tími fyrir Vöniu að taka næsta lyfjaskammt. Hún gerði það, enda þjáð í bakinu; handleggurinn hafði skánað mikið. Það er stutt flug til Guatemala og þegar vélin var að fara að lenda byrjaði Vania að finna fyrir vanlíðan. Hún svitnaði köldum svita, hana svimaði og henni var óglatt. Í lendingunni leið yfir hana. Hún vaknaði síðan við það að múgur og margmenni (að henni fannst) stumraði yfir henni. Hún var borin út úr vélinni þar sem læknir tók á móti henni ásamt fleiri karlmönnum. Allir voru mjög áhyggjufullir og lögðu sig fram um að sannfæra hana um að allt yrði í lagi. 

Framhald á morgun...


Vania

Áður en ég held áfram með söguna mína, verð ég að segja aðra sögu. Þannig er að ég á góða vinkonu sem heitir Vania og er ættuð frá Chile en ólst upp hér eftir að mamma hennar flúði með hana sem kornabarn undan einræði Pinochet. Undanfarin ár hefur hún verið búsett í Los Angeles í Bandaríkjunum vegna þess að hún giftist þarlendum manni. Fyrir nokkru skildu þau en hún bjó áfram í L.A. í nokkurn tíma. Hún átti svo að koma til Kosta Ríka sama dag og ég, 1. júní. Daginn eftir það hringdi ég í mömmu hennar en þá var hún ekki komin og það eina sem ég fékk að vita var að hún hefði lent í „atviki“ á flugvellinum og kæmi daginn eftir. Þegar ég svo loksins hitti hana sagði hún mér sögu sína og ég ætla hér að hafa hana eftir henni eins nákvæmlega og ég mögulega get. 

Að kvöldi 31. maí lagði Vania af stað á flugvöllinn í Los Angeles þar sem hún hafði hugsað sér að taka flugvél til Mexíkó og þaðan til Kosta Ríka og hitta móður sína og systur í fyrsta skipti í langan tíma, og systurdóttur sína í fyrsta skipti, og vera hjá þeim í hálft ár. Eftirvæntingin var skiljanlega ákaflega mikil. Hún hafði pakkað niður í miklum flýti kvöldið áður, eins og venjulega, og þar sem hún var nýbyrjuð á blæðingum pakkaði hún niður túrtöppum. Þar sem þetta var einfalt og fljótlegt flug pakkaði hún niður tveimur stykkjum. 

Klukkan hálftólf um kvöldið stóð hún í rútu sem flutti fólkið frá flugvallarbyggingunni að rananum þar sem flugvélin þeirra stóð og átti að flytja alla farþegana 145 til Mexíkó. Allir farþegarnir voru í þessari einu rútu. Þegar stutt var eftir af ferðinni og sást til flugvélarinnar, varð Vania, sem stóð fremst í vagninum, vör við að eitthvað var ekki í lagi. Rútan keyrði á ógnarhraða og hægði ekki á sér þrátt fyrir að bíllinn sem flutti farangurinn þeirra nálgaðist frá hægri. Allt í einu snarbremsaði bílstjóri rútunnar þannig að mikill hnykkur kom á hana og svo aftur þegar hún stöðvaðist. Vania hafði haldið sér í stöngina sem er uppi undir lofti og við þetta kastaðist hún til og frá og handfarangurinn hennar þeyttist út í buskann. Vania endaði á gólfinu ásamt öllum hinum 144 farþegunum.

Fljótlega kom slökkviliðið á vettvang til að athuga hvort einhver hefði slasast og niðurstaðan var sú að Vania og eldri kona frá Mexíkó voru þær einu sem höfðu meiðst eitthvað að ráði. Allir farþegarnir voru sendir upp á ranann þaðan sem þeir fóru síðan inn í flugvélina, en Vania og mexíkanska konan urðu eftir þar sem þær gátu, þegar hér var komið sögu, lítið hreyft sig. Vania hafði farið úr lið á vinstri úlnlið svo höndin og handleggurinn voru stokkbólgin, auk þess sem henni var farið að vera illt í bakinu. Svo flugvélin fór án þeirra en þær stóðu eftir í rananum og horfðu á hana aka út á flugbrautina. 

Jæja, ég læt þetta nægja í dag. Framhaldið kemur í næstu viku því ég er á leiðinni á ströndina við Karíbahafið í Jamaica-fíling og kem aftur á þriðjudaginn.


Húsmóðirin

Amma Eriks er svona týpísk húsmóðir. Eins og þær voru fyrir þrjátíu árum. Hún vaknar snemma á morgnanna og eldar handa okkur morgunmat: Hrísgrjón og svartar baunir er hitað saman í potti og eins konar sýrður rjómi sett út á og þetta er borðað saman inni í lítilli tortillu. Síðan fáum við líka egg, ristað brauð, ferskan ávaxtasafa og kaffi. Þegar morgunmaturinn er frá er byrjað að elda hádegismatinn, sem er aðalmáltíð dagsins. Síðan er líka eldaður léttur kvöldverður. Við borðum semsagt þrjár heitar máltíðir á dag þessa dagana.

 

Á milli þess sem hún eldar oní mannskapinn fer hún hingað og þangað að hjálpa til, á elliheimili eða eitthvert á vegum kirkjunnar, og er greinilega dugleg við að gefa ölmusu. Um daginn vorum við ein heima og þá komu tveir betlarar að hliðinu (hér eru öll hús umkringd læstum rimlum) og spurðu eftir henni með nafni. Þá var hún vön að gefa þeim eitthvað reglulega. Ég sendi annan í burtu og sagði honum að koma aftur seinna, ég vissi ekki þá hvað það var sem hann vildi, en hinn betlarinn var pínulítil gömul krumpuð kona sem sagði mér allt um aðstæður sínar og ég gat bara ekki sent hana tómhenta í burtu. Ég safnaði því saman 1000 kólumbusum meðal ferðafélaga minna og gaf henni ásamt tveimur mangóum, sem föðurbróðir Eriks hafði komið með úr sveitinni daginn áður. Hún var ánægð með það og bað Guð að blessa mig fyrir. Ekki amaleg laun það.

 Að auki sér amman um eiginmann sinn, afa Eriks, en hann þjáist af vatnssöfnun við heila, sem lýsir sér á svipaðan hátt og alzheimer. Hann þekkir ekki aftur fólk sem hann hefur ekki séð í ákveðinn tíma, man ekki eftir því hvort hann er búinn að borða, en fylgist alltaf vel með klukkunni og spyr okkur oft hvað klukkan er. Þessi myndarlegi maður á besta aldri, sem alltaf var líkamlega mjög vel á sig kominn og ákaflega leikinn í að daðra við konur, er nú allt í einu orðinn gamall maður.

Leiðrétting

Vegna tæknilegra örðugleika reyndist ekki unnt að senda út pistilinn í gær en nú eru vandamálin leyst og hann verður í Víðsjá í dag kl. 5 og síðan á miðvikudögum eftir það.

Víðsjá í dag kl. 5

Ég hvet ykkur til að hlusta á Víðsjá á rás eitt í dag klukkan 5. Þá verður pabbi með pistil héðan og síðan á hverjum miðvikudegi á meðan við erum hér.

Tíminn

Þið verðið að afsaka. Tímamismunurinn milli Íslands og Kosta Ríka er svo mikill að þegar ég segi „í gær“ þá þýðir það eiginlega „í fyrradag“. Þegar ég set inn pistla þá er ekki kominn kvöldmatur hjá mér, en hins vegar er þá kominn nýr dagur hjá ykkur. Í þetta sinn lagði ég mikið á mig til að vera snemma í því, þið getið ekki ímyndað ykkur... Það er semsagt sex tíma munur, sem við græddum þegar við komum hingað. Þannig að við vöknuðum klukkan hálf sjö morguninn sem við fórum af stað og fórum að sofa í Nýju Jórvík klukkan svona hálf ellefu um kvöldið, en vöktum samt í tuttugu tíma. Daginn eftir það vöktum við í um átján tíma svo þið getið ímyndað ykkur þreytuna sem hafði safnast upp. Enda beið ég frá klukkan þrjú um daginn eftir því að klukkan yrði átta svo ég gæti farið að sofa.  

Reyndar er takturinn hér allt öðruvísi en heima. Eins og ég hef sagt áður þá er þetta ekki bara annað land heldur annar heimur, og í þessum heimi er fólki ekki skipt niður í A og B manneskjur. Það eru allir A manneskjur. Meira að segja forhert B manneskja eins og ég fer að sofa klukkan níu eða tíu og vakna klukkan sex. Og mér líður bara miklu betur! Hins vegar veit ég af reynslunni að ég held þessu ekki áfram þegar ég kem heim aftur heldur verð aftur gamla, góða B manneskjan sem ég er vön að vera. Enda er sagt að B manneskjur séu hið skapandi afl í heiminum. Ég sel það samt ekki dýrara en ég keypti það...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Höfundur

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Spurt er

Hvernig húsi viltu helst búa í?

Tónlistarspilari

Facto Delafé Y Las Flores Azules - Enero En La Playa

164 dagar til jóla

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 23794

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband