Klukk!

Ég hef verið klukkuð og það þýðir að ég verð að reiða fram 8 stykki játningar. Sem betur fer er ég á leið úr landi í kvöld svo mér er víst óhætt að gera þetta og vona bara að allt verði gleymt eftir þrjár vikur Smile. Svo hér kemur það:

1. Ég horfi alltof mikið á sjónvarp. Það versta er að ég er bara með RÚV.

2. Ég er mikil áhugamanneskja um kaffi. Samt finnst mér nánast allt kaffi vont nema það sem ég sjálf og amma mín búum til.

3. Mér líður illa í miklu drasli og ryki. Ég er mjög löt að taka til og þrífa enda finnst mér það mjög leiðinlegt. Þetta veldur því að húsið mitt er draslaralegt og fullt af ryki.

4. Ég þoli ekki átök við fólk. Ég vil bara lifa í sátt og samlyndi við alla í kringum mig. Þegar ekki verður komist hjá átökum á ég það til að láta mig hverfa.

5. Ég er ekki mikið fyrir ókunnugt fólk. Ég er ekki góð í að tala við ókunnugt fólk og finnst óþægilegt að spjalla við það um ómerkilega hluti. Hins vegar á ég það til að koma með fyndin eða kaldhæðin komment við afgreiðslufólk eða aðra sem ég neyðist til að eiga samskipti við og það fellur ekki alltaf í góðan jarðveg.

6. Ég er haldin vægri þráhyggju. Oft geri ég hluti á ákveðinn hátt án þess að vita hvers vegna ég geri þá nákvæmlega svona þegar í rauninni er betra að gera þá öðruvísi. Mér finnst bara betra að gera þá á minn hátt og ég þoli ekki þegar fólk gagnrýnir það.

7. Ég er haldin fullkomnunaráráttu. Ég get ekki sent neitt frá mér nema það sé fullkomið og ef það er það ekki þá líður mér illa. Þar af leiðandi er ég oft mjög lengi að gera hlutina og þegar ég var barn var mér nokkrum sinnum sagt að það væri hægt að vera of vandvirkur!

8. Ég er með minn eigin háralit. Ég ákvað fyrir nokkrum árum að hætta að lita á mér hárið og vera ein af fáum konum sem þora að sýna sinn eigin háralit. Mig langaði líka til að vita hvernig hárið á mér er á litinn í raun og veru.

Þar hafið þið það. Heyrumst frá Spáni! Tounge


Gott mál

Frábært hjá forsetanum okkar að setja gott fordæmi og fá sér bíl sem er umhverfisvænni en flestir. En hvenær verður hinum almenna borgara gert kleyft að fá sér svona bíl? Þá á ég við, hvenær verður svona bíll raunhæfur kostur fyrir mig og mína líka sem þénum aðeins minna en forsetinn?

Svo vil ég minna ykkur á að vera viss um að ekkert vatn leki af bílnunum ykkar.


mbl.is Forsetaembættið fær umhverfisvænan bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvíli hún í friði

Jæja, þá veit ég allt um afdrif Hallgerðar. Dýralæknir á Dýraspítalanum í Víðidal hafði samband við mig og lét mig vita að hún hefði komið inn fárveik, sennilega mjög stuttu eftir að hún týndist, og ekki lifað af nóttina. Nýrnabilun var það víst. Ég hef grun um að hún hafi fengið sér frostlög sem hefur lekið úr einhverjum bílnum, en fyrsta kisa Völu systur gerði það sama og henni var sagt að ekkert væri hægt að gera fyrir hana. Frostlögurinn er bragðgóður en baneitraður. Hér með hefst barátta mín fyrir því að bíleigendur passi upp á að vatnstankarnir í bílunum þeirra leki ekki!! Ef þú sérð poll undir bílnum þínum, láttu athuga það svo þú hafir ekki kattarlíf á samviskunni!

Við syrgjum Hallgerði mikið og vonum að hún hafi það gott á dýrahimninum. Við gleymum henni aldrei.


Kisan mín!

Ég fékk þær leiðinlegu fréttir þegar ég kom heim frá Kosta Ríka að önnur kisan mín, hún Hallgerður, hefði farið í ferðalag svona viku áður og sagði engum hvert hún væri að fara. Hún er bröndótt, smávaxin og ofsalega falleg og hennar er sárt saknað. Hún er eyrnamerkt 1677. Hér er mynd af henni og mér þætti vænt um ef þið gætuð haft samband ef þið sjáið til hennar, t.d. með því að skrifa athugasemd hér eða finna mig í símaskránni. Hún gæti hafa lokast einhversstaðar inni. Hallgerður

Önnur skotárás

Það á ekki af manni að ganga hérna. Ég get ekki sagt að mér líki við New York-borg og enn minna eftir gærdaginn (eða fyrradaginn...eða eitthvað, er orðin pínu rugluð). Í fyrsta lagi lentum við á verulega fýldum landamæraverði sem sagði varla meira en 3 orð í einu og sendi okkur tvisvar til baka til að skrifa eitthvað sem vantaði á eyðublöðin og var svo horfinn í seinna skiptið sem við komum aftur. Það er nú meira hvað sumir geta verið ruddalegir!

Síðan lentum við á leigubílstjóra sem rukkaði okkur alltof mikið (allt pabba að kenna, auðvitað). Ég vissi að þetta var alltof hátt verð en nennti ekki að gera veður út af því vegna þess að klukkan var hálfþrjú um nótt og Erik að deyja úr þreytu.

Að lokum vaknaði ég við það um nóttina að hleypt var af skotum einhvers staðar í nágrenninu. Ég vissi að þetta var ekki gott hverfi, en fyrr má nú vera. Fyrst heyrðust nokkur skot, síðan hróp og köll og stuttu seinna vaknaði ég við mikið sírenuvæl. Ég lagði ekki í það að spyrja morguninn eftir í lobbyinu hvað hefði verið um að vera.

Auk þess eru margir sem vinna við afgreiðslu í þessari borg dónalegir og leiðinlegir og erfitt að skilja enskuna þeirra. Og hananú! Angry


Skotárás

Í gær var maður skotinn í verslanamiðstöð í hverfi í San José. Hann lifði af. Við Erik fórum þarna framhjá í strætó þegar lögreglubílarnir og sjúkrabílarnir voru fyrir utan. Við vorum einmitt stödd í þessu hverfi á þeim tíma sem skotárásin fór fram og ég hafði verið að spá í hvort ég ætti að koma við í verslanamiðstöðinni Shocking. 

Um daginn fóru 15 hús í viðbót í hvirfilvindi í úthverfi San José, aðeins örfáa kílómetra héðan. 

Annars er ég að fara héðan núna eftir nokkra klukkutíma. Mánuður er alveg passlegur tími, ekki of mikið og ekki of lítið. Við höfum lent í heikmiklum ævintýrum, kannski ferðafélagar mínir meira en ég því ég hef upplifað svipaða hluti áður. Við fórum í frumskógarferð Karíbahafsmegin þar sem við óðum læki og böðuðum okkur í hyl undir fossi; við fórum í göngutúr í öðrum frumskógi Kyrrahafsmegin, sáum apa, eðlur og þvottabirni og sveifluðum okkur í trjánum a la Tarzan; tíndum fræ af Guanacaste-tré sem eru seld hér dýrum dómum í skartgripum; við héngum í hengirúmum og slöppuðum af; forðuðum okkur undan köngulóm sem hlupu á vatninu í sundlauginni; fórum á almenningsspítala sem tók fjóra og hálfan klukkutíma, þar af biðum við tæpa tvo tíma eftir lyfjunum; og við Vania blikkuðum eiganda lítillar pool-stofu til að kenna okkur að spila. Hann var mjög góður kennari. Við vorum einu kvenkyns viðskiptavinir hans og þar af leiðandi gátum við aldrei notað klósettið á staðnum því það var ekki gert ráð fyrir konum. 

Ég mæli semsagt eindregið með því að ferðast til Kosta Ríka, munið bara að kaupa ykkur krem eða sprey til að draga úr flugnabitum. Fólkið er alúðlegt og verðlagið hagstætt. Það er samt best að fara í júní því þá eru fæstir ferðamenn og verðlagið á hótelum og slíku lægst. Sjáumst á Íslandi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Höfundur

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Spurt er

Hvernig húsi viltu helst búa í?

Tónlistarspilari

Facto Delafé Y Las Flores Azules - Enero En La Playa

164 dagar til jóla

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 23794

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband