Þriðjudagur, 5. júní 2007
Moskítóflugur
Í gær fórum við upp á eldfjall í 2600 metra hæð. Ég hef komið þangað tvisvar áður en það er samt alltaf gaman að sjá gíginn og hvernig hann breytist í áranna rás. Fyrir þremur eða fjórum mánuðum varð víst eldgos þarna og það getur alltaf gerst svo reglan er sú að allir bílarnir á bílastæðinu eiga að snúa fram. Þannig verða allir fljótir að keyra af stað ef eldgos brýst út. Við vorum einstaklega heppin með veður, það var skýjað með köflum en gott skyggni, þótt við hefðum keyrt í gegnum nokkur ský á leiðinni upp. Pabbi, Vala og Gústi fengu síðan nasasjón af rigningunni langþráðu á leiðinni niður aftur, þegar við keyrðum í gegnum rigningarbelti. Því miður fengu þau ekki að fara út úr bílnum til að prófa regnhlífarnar sínar.
Ég fékk þrjú moskítóbit fyrsta daginn en síðan ekki meir, þrátt fyrir að Vala sé öll útbitin. Í dag hætti ég síðan að hrósa happi því ég fékk fjögur bit í viðbót. Ég held samt að það búi bara moskítófluga í sófastólnum svo besta ráðið er að setjast aldrei framar í þann stól. Húsfreyjan á heimilinu, amma Eriks, fékk sjúkdóm fyrir nokkru sem heitir dengue og smitast milli manna með ákveðinni tegund af moskítóflugu. Sjúkdómurinn lýsir sér á svipaðan hátt og malaría, nema hann kemur ekki upp aftur seinna á ævinni. Sjúklingurinn fær hita, verki um allan líkamann og stundum uppköst og niðurgang og getur legið í rúminu í allt að tvær vikur. Ef hann er hins vegar bitinn aftur af sýktri flugu verður sjúkdómurinn hættulegur þar sem sjúklingurinn fær blæðingar hér og þar um líkamann, jafnvel innvortis, og hann getur dáið. Sjúkdómurinn er landlægur í suðurhluta Bandaríkjanna, Mið- og Suður-Ameríku, Afríku, Suður-Asíu og hluta af Eyjaálfu. Ég er að vona að þessi ákveðna tegund moskítóflugna sé ekki landlæg hér í húsinu...
Svo er ég enn að venjast verðlaginu hérna. Verðbólga hefur verið talsverð undanfarin ár en mér skilst að hún sé nokkuð stöðug núna. Allt miðast við verðgildi dollars. Ef dollarinn hækkar, hækkar verðlag. Frá því ég var hér fyrst, fyrir 13 árum, hefur dollarinn hækkað um meira en hundrað prósent. Það er erfitt að venjast því að eitthvað sem kostar núna tólf þúsund kólumbusa (colones) sé í rauninni ekki dýrt. Tíu þúsund kólumbusar eru um tólfhundruð krónur. Bjórinn kostar 650 kólumbusa. Og reiknið nú!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 02:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 2. júní 2007
Komin til Kosta Ríka
Þegar ég var krakki fór ég ekki í ferðalag nema að taka með mér stílabók og blýant. Síðan skráði ég ferðasöguna í smáatriðum, bókin fór ofan í skúffu þegar ég kom heim og enginn las hana nema ég. Nú eru breyttir tímar. Í dag tek ég með mér tölvuna í ferðalagið og hver sem er getur lesið ferðasöguna mína um leið og ég er búin að skrifa hana. Magnað!
Ég sit semsagt hér í Alajuela í Kosta Ríka með tölvuna mína og nokkur moskítóbit og skrifa þessi orð. Það virtist allt ætla að fara úrskeiðis á leiðinni hingað. Allt gekk á afturfótunum. Það byrjaði á því að við þurftum að hlaupa að hliðinu í Keflavík þar sem við gleymdum okkur svo mikið í pælingum um hvað við ættum eiginlega að kaupa handa heimilisfólkinu í Alajuela. Það varð úr að við keyptum konfektkassa og þrjá brennivínspela.
Þegar við komum til Nýju Jórvíkur sá Vala að taskan hennar var ónýt, hjólið hafði rifnað af þannig að á einu horninu var stórt gat. Það er spurning hvort ekki þurfi að fara í mál við einhvern til að fá þetta bætt.
Á hótelherberginu sem við gistum á var nettenging innifalin í verðinu en við gátum engan veginn tengst því, hvorki með né án snúru. Okkur tókst samt að láta 38 ára gamlan draum pabba rætast og fara upp í Stórveldisbygginguna (Empire State Building). Hann hefur reynt að fara þangað upp síðan 1969; fyrst þá og svo aftur 1988. Svo við ætlum að fara aftur árið 2026 og á 19 ára fresti þaðan í frá.
Við vöknuðum síðan um miðja nótt til að halda áfram ferðinni og aftur lentum við í því að vera síðust inn í vélina. Það var þó ekki vegna slugsaháttar í þetta sinn, heldur vegna þess að við vorum öll búin að steingleyma því að ekki mátti vera með vökva í handfarangri. Brennivínspelarnir þrír enduðu því hjá tollvörðunum eftir árangurslausa tilraun til að hlaupa með þá að innritunarborðinu þar sem móttökurnar voru svipaðar og hjá konunni á ferðaskrifstofunni í Little Brittain sem sagði alltaf bara "Computer says no".
Það síðasta sem fór úrskeiðis var í lendingunni í San José. Nei, það er allt í lagi með flugvélina, ég ætlaði bara að taka mjög mikilvægt skot fyrir kvikmyndina þegar batteríið kláraðist.
Undanfarnar vikur hefur víst rignt mjög mikið hér, en nú þegar við erum komin þá rignir bara ekki neitt! Ferðafélagar mínir eru mjög vonsviknir yfir því, þau eru mjög spennt fyrir hitabeltisrigningunni. Áðan heyrðust dropar falla á laufin á trjánum og svo heyrðist í þrumu í fjarska og pabbi og Gústi lifnuðu allir við og biðu tilbúnir með nýju regnhlífarnar sínar sem þeir keyptu af götusala í miðbæ San José í dag. En svo varð ekkert almennilegt úr rigningunni og ég hef ekki heyrt í þeim síðan. Ég frétti að það væri bara rigning og suddi heima svo ætli við höfum ekki bara tekið góða veðrið með okkur hingað.
Með hitabeltiskveðju
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 30. maí 2007
1 dagur í ferð til Kosta Ríka
Í rauninni er minna en einn dagur þangað til við förum en ég hef ekki tíma til að blogga á daginn. Ég á enn eftir að klára að pakka og taka til í tveimur herbergjum. Og vökva blómin. Nágranninn er búinn að fá leiðbeiningar um hvernig á að sjá um kisurnar og húsið er orðið bara nokkuð fínt.
Á morgun förum við til New York og skoðum okkur um þar í einn dag og síðan höldum við áfram til San José í Kosta Ríka. Planið er að gista fyrst um sinn hjá foreldrum barnsföður míns og hugsanlega verða einhver okkar hjá nágrönnunum. Samkenndin er dáldið meiri þar en hér... Það er um tíu mínútna akstur frá alþjóðaflugvellinum heim til fyrrverandi tilvonandi tilvonandi tengdaforeldra minna.
Fylgist með ferðasögunni hér á thuridurbjorg.blog.is
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 29. maí 2007
2 dagar í ferð til Kosta Ríka
Þá er bara morgundagurinn eftir til að undirbúa ferðina og það er enn margt eftir. Svo bættist við að ég þarf að fara aftur til sjúkraþjálfara á morgun vegna stirðleika í hálsi. Frábært!
Það sem allir ferðafélagar mínir þurfa að gera sér grein fyrir nú þegar, áður en við förum af stað, er að við erum um það bil að fara inn í annan heim. Það er ekki nóg með það að augljósu hlutirnir eru ólíkir því sem við eigum að venjast, s.s. loftslagið og arkitektúrinn, heldur má líka eiga von á því að einhverjir fái menningarsjokk stuttu eftir komuna. Ekki að menningin á staðnum sé slæm, heldur bara ólík okkar menningu. Sem dæmi má nefna að allir eru kurteisir í Kosta Ríka. Maður verður var við það strax í flugvélinni þegar einhver segir við flugfreyjuna: "Fyrirgefðu, afsakið, myndirðu vera svo væn að færa mér servéttur?" Enginn ropar eða snýtir sér á almannafæri. Herramennskan lifir góðu lífi, sem er skemmtileg tilbreyting frá hegðun okkar ástkæru íslensku karlmanna, sem nánast ryðjast fram fyrir konurnar inn og út um allar dyr og sleppa svo hurðinni þannig að maður má þakka fyrir að fá hana ekki beint á nefið. Svo kunna þeir líka að dansa. Það dansa allir í Kosta Ríka. Diskótekin eru full af fólki af báðum kynjum að dansa salsa, merengue og fleiri latneska dansa. Hins vegar virðist enginn þar inni vera fullur. Einu sinni sá ég mann á diskóteki sem hagaði sér nákvæmlega eins og hinn típíski fulli Íslendingur og allir voru mjög hneykslaðir. Það endaði með því að honum var hent út.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. maí 2007
3 dagar í ferð til Kosta Ríka
Dagarnir líða alltof hratt núna, ég á eftir að gera svo margt áður en við förum. Eitt af því er að taka til í húsinu . Einu sinni tók ég svefnherbergið í gegn og það tók þrjá daga. Svo breytti ég því í borðstofu... Einn stærsti gallinn við að vera einstæð (eða einhleyp) móðir er tímaskorturinn. Það er bara ekki tími til að taka til og þrífa á veturna. Ég rétt kemst yfir þetta lífsnauðsynlegasta: að vaska upp, þvo þvott og þrífa heimilismenn. Annað verður að bíða til sumars. Og ég er bara með eitt barn!
Það er mikill spenningur í gangi á heimilinu. Sá litli gerir ekkert sem hann er beðinn um og má ekki einu sinni vera að því að fara á klósettið. Það eykur reyndar talsvert álagið á þvottvélina. Hann hlakkar svo mikið til að hitta pabba sinn sem hann hefur ekki hitt síðan í ágúst. Ég nota tækifærið og reyni að siða hann til með því að segja að í Kosta Ríka sé til siðs að borða með hnífapörum og alveg bannað að prumpa við matarborðið. Það virkar ekkert sérlega vel.
Meira á morgun...
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 28. maí 2007
4 dagar í ferð til Kosta Ríka
Það var enginn tími til að blogga í gær, þess vegna var enginn pistill um 5 daga í ferðalag. Fyrst var aðalfundur hjá Félagi einstæðra foreldra, þar sem Jóhanna Sigurðardóttir var svo almennileg að koma okkur inn í dagskrána hjá sér, þrátt fyrir miklar annir í nýju embætti, og hélt glimrandi tölu. Takk, Jóhanna! Síðan var útskrift hjá tilvonandi tilvonandi mági mínum, en hann lauk stúdentsprófi frá MH með því að taka þrjá síðustu áfangana í vetur í fjarnámi hjá okkur í Ármúla og þar af einn hjá undirritaðri . Hann fékk sérstök verðlaun fyrir að vera yndislegasti nemandinn. Þar með hefur hann lokið sínu stúdentaprófi á 9 árum. Dúxinn lauk því á 3 svo að meðaltali tóku þau sér 6 ár í þetta. Hver var aftur að tala um að stytta stúdentinn niður í 3 ár?...
Meira á morgun...
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Spurt er
Tónlistarspilari
163 dagar til jóla
Tenglar
Spænska
- Frú Mínerva Málaskóli
Myndir frá Kosta Ríka
Hér eru myndaalbúm með myndum frá Kosta Ríka í júní 2007.
Lindy Hop
Þetta er dansINN!
- Heimasíðan okkar
- Hellzapoppin So you think you can dance!!
- Showdown 2006 Ég get þetta sko alveg...
Myndaalbúm
Bloggvinir
-
andreaolafs
-
hugdettan
-
astar
-
bjorkv
-
bleikaeldingin
-
brylli
-
fitubolla
-
neytendatalsmadur
-
gurrihar
-
hallarut
-
handtoskuserian
-
hlynurh
-
jenfo
-
jensgud
-
johannbj
-
jonbjarnason
-
hugsadu
-
lauola
-
larahanna
-
mammzla
-
mariataria
-
manisvans
-
svarthamar
-
runavala
-
soley
-
smjattpatti
-
jam
-
svenni
-
toshiki
-
truno
-
vefritid
-
hallormur
-
thorgnyr
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar