Færsluflokkur: Dægurmál

Kæra fröken Ríkisstjórn

Sko. Maður er bara að reyna að vekja athygli á sér svona rétt fyrir kosningar, skrifar grein og allt til að reyna að koma málefnum einstæðra foreldra inn í umræðuna, og svo er greinin bara ekki tengd við bloggið manns! Hvurslags eiginlega...! Nú, ég verð þá bara að vísa ykkur á hana hérna. Þið getið meira að segja valið hvort þið lesið hana á mbl.is eða visir.is.

Líf kennarans

Ég hef ekki verið dugleg að blogga undanfarið en hef þá afsökun mér til varnar að ég er kennari. Nú eru próf og mikið að gera. Reyndar er alltaf mikið að gera, nema á sumrin. Ég taldi víst að ég væri í a.m.k. 120% starfi en fékk að heyra nýlega að ég væri ekki í nema um 115% starfi. Surprise!! Í dag sat ég yfir prófum frá níu til fimm. Það þýðir að ég gat ekki samið próf á meðan, en ég á að skila af mér þremur á föstudaginn. Svo er til fólk sem heldur því fram að það sé ljúft líf að vera kennari! Það er sannarlega ljúft á sumrin, en níu mánuði ársins vinnum við af okkur sumarfríið.

Ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér hvers vegna ég veit ekki nákvæmlega starfshlutfallið mitt er ástæðan sú að ég kenni 75% í dagskóla, þ.e. venjulega kennslu, og restin er í fjarkennslu, þar sem það fer eftir nemendafjölda hversu hátt starfshlutfallið er.


Gamla Reykjavík

Núna skil ég hvers vegna Reykjavík er að breytast í steypuklump og glerhýsi. Fleiri en mig grunaði virðast á þeirri skoðun að eyðileggja beri Reykjavík gjörsamlega, rífa niður gömlu timburhúsin, sálina. Það virðist ekkert mega minna á gamla tíma. Við eigum nóg af nýtískulegum húsum í Reykjavík. Sum eru flott, önnur afar ljót. Þau passa bara alls ekki í miðbænum. Miðbærinn er venjulega elsti hluti hverrar borgar og því eðlilega forn á að líta. Þannig á það líka að vera. Alls staðar erlendis er gamla miðbænum haldið við í sem upprunalegastri mynd. Í Póllandi fengu menn tækifæri til þess að endurbyggja gamla miðbæ Varsjár frá grunni eftir seinna stríð. Þeir endurbyggðu hann eins og hann var á 17. eða 18. öld. Bara með öllum nútímaþægindum. Hann er núna mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, enda sérlega fallegur á að líta. Hvað getum við gert að því þó að þetta séu eldfim timburhús? Kannski væri ráð að sleppa því að vera með skemmtistaði í þeim.. og halógenljós sem kviknar í...

Nú þegar er búið að eyðileggja miðbæinn okkar að hluta með morgunblaðshöllum og ráðhúsum. Kaupmenn vilja rífa meira og minna allan Laugaveginn og byggja eitthvað nýtískulegt. Ég get sagt ykkur það að ég gekk einu sinni niður allan Laugaveginn og skoðaði hvaða hús stóðu auð. Það voru fleiri ný og nýleg hús en gömul. Þar fór gróðrahugsjónin fyrir lítið!

Ég bý í gömlu timburhúsi í miðbænum. Ég vil fá að halda því, takk!


mbl.is Samvinnu leitað við eigendur um að götumynd verði endurbyggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Götumyndin við Lækjartorg

Vilhjálmur sagði líka í útvarpsfréttum að það ætti endilega að byggja upp þennan reit í "svipuðum stíl". Hvað merkir það? Þessi hús voru sögufræg fyrir marga hluti, þar á meðal byggingarstíl. Danskur stíll, einlyft með bröttu þaki, byggt 1802 (Pravda). Hvers vegna ekki að byggja þau upp nákvæmlega eins og þau voru? Ég bý sjálf í gömlu  timburhúsi. Þau hafa sál. Þau eiga það skilið að vera endurbyggð. Og við eigum það skilið að götumynd eins elsta hluta bæjarins, sem við ólumst upp við, breytist ekki. Við töpuðum götumynd Lækjargötu eftir að Tunglið brann. Við syrgjum þessi hús!
mbl.is Borgarstjóri: „Þetta er mjög döpur stund“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Koma svo!

Ótrúlegt afrek hjá Vinstri grænum að veita Sjálfstæðisflokknum NÆSTUM því samkeppni! Þetta er allt að koma!

Hvernig væri annars að bara sleppa þessum stöðugu skoðanakönnunum svona rétt fyrir kosningar og leyfa fólki að hugsa sjálfstætt? Þetta er orðið soldið þreytandi...


mbl.is Fylgi Samfylkingar minnkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Femínismi og klám

Til er hópur fólks sem lítur á sig sem jafnréttissinna en telur jafnframt að femínistar séu öfgahópur móðursjúkra og biturra kellinga sem hafa ekkert betra við sinn tíma að gera en að tína til dæmi um tilvik þar sem konur eru settar í fórnarlambshlutverkið. Það er hins vegar mikill misskilningur hjá þessu fólki. Femínistafélag Íslands skilgreinir femínista sem "karl eða konu sem veit að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað í því". Að öðru leyti er hugtakið femínismi mjög vítt og erfitt að skilgreina í stuttu máli. Til eru margar greinar femínisma, t.d. frjálslyndur femínismi, róttækur femínismi og póstmódernískur femínismi. Ef einhver vill lesa sér betur til um það hefur Soffía Auður Birgisdóttir skrifað greinaflokk um þetta efni (Frjálslyndur femínismi, Marxískur femínismi, Róttækur femínismi, Femínismi og sálgreining, Femínismi og póstmódernismi).

Það er allt í lagi að vera ekki femínisti. En áður en fólk dæmir femínista sem einsleitan öfgahóp og setur sig upp á móti þeim, sem eru auðvitað öfgar í sjálfu sér, mæli ég með að það kynni sér málið.

Eitt þeirra málefna sem margir femínistar láta sig miklu varða er klám. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að tala um klám án þess að tala um ofbeldi í leiðinni, bæði andlegt og líkamlegt. En til eru þeir sem staðhæfa að margar konur njóti þess að stunda klám. Kannski eru það þeir sömu og vilja alls ekki láta bendla sig við femínisma. Ég bendi á þetta sem dæmi um það. Takið eftir athugasemdunum og hversu fáar konur tjá sig um efnið.

Þetta er uppáhalds málsgreinin mín í bloggpistlinum sem ég vitnaði í áðan: "En umræðan um að klám sé eitthvað alsæmt finnst mér á villigötum.  Klám hefur meira að segja hjálpað mörgum, hefur reynst fín afþreying fyrir miljónir manna.  Konur hafa öðlast peninga og völd vegna kláms."

Fantasían um hina hamingjusömu klámmyndastjörnu virðist því enn lifa góðu lífi. En jafnvel unglingarnir gera sér grein fyrir skuggahliðum klámsins, eins og Andrea J. Ólafsdóttir og Hjálmar Sigmarsson komust að við rannsókn sem þau gerðu síðastliðið sumar og hægt er að lesa um hér. Við rannsóknina kom í ljós að unglingar telja að klámi sé þröngvað upp á þá með auglýsingum í fjölmiðlum, á Netinu og víðar. Og þeir eru ekki sáttir við það:

"Andrea segir merkilegt að sjá hverjar afleiðingar klámsins séu að mati unglinganna. "Stelpurnar voru sammála um að klám væri niðurlægjandi, ógeðslegt, óraunverulegt og fáránlegt." Um þetta voru flestir strákarnir líka sammála."

Ein skuggahliðin á klámi er líkamlegt atgervi leikaranna, sérstaklega kvennanna, sem seint getur talist heilbrigt. Dagný Kristjánsdóttir prófessor talar um þetta í grein sinni um klámmyndir á kistan.is. Þar segir hún m.a.:

"Nýrri klámmyndir eru undarlega ólíkar myndum áttunda áratugarins. Leikkonur þá voru engar feitabollur en núna eru þær orðnar svo grannar að þær líkjast meira tískufyrirsætum en venjulegum konum. Það þýðir að fituvefirnir eru upp urnir af líkömunum og brjóstin þar með, svo að það verður að búa þau til aftur með sílíkoni og þar sem þau verða að vera mjög stór verða þau eins og fótboltar framan á drengjalegum líkömunum. Kyntákn kvenna, brjóst og mjaðmir eru sem sagt afmáð og búin til aftur í ýktu formi sums staðar. Þær eru rakaðar að neðan til að myndavélaraugað sjái allt og svona konur hefur guð aldrei skapað. Þessar stúlkur eru eins og sílíkonur (hugtakið frá Úlfhildi Dagsdóttir) eða skúlptúrar, stílfærðar, mótaðar og umbreyttar." Greinin er í heild sinni hér.

Önnur skuggahlið birtist í væntingum þeirra sem fara út í klámiðnaðinn, og þá sérstaklega kvennanna. Dagný segir um þetta í sömu grein:

"Margar leikkvennanna fara út í þennan bransa af því að þær halda að þær verði frægar og geti fært sig yfir í alvöru kvikmyndirnar. Það er mjög sorgleg blekking vegna þess að þær eru í raun að brenna allar brýr að baki sér. "

Þetta er stóra blekkingin í bransanum. Margir falla fyrir henni og eru bloggarar hér á blog.is þar engin undantekning: "Klám hefur meira að segja hjálpað mörgum, hefur reynst fín afþreying fyrir miljónir manna.  Konur hafa öðlast peninga og völd vegna kláms." Klám er meira en bara "fín afþreying", hún eyðileggur líf margra einstaklinga með því að binda þá á klafa klámiðnaðarins fyrir lífstíð eða þar til orkan er búin. Klámlíferni er oftast óreglulegt líferni með tilheyrandi fylgifiskum, s.s. eiturlyfjum, átröskunum og kynsjúkdómum. Því fylgir einnig fyrirlitning samfélagsins. Erum við sátt við að börnin okkar verði hluti af þessu?


Maddaman

Þá er maður kominn aftur úr sveitinni og myndir úr fjárhúsinu sjást á tenglinum "Myndirnar mínar".

Bóndinn á bænum skrifaði grein ekki fyrir löngu og ég vona að ég svíki ekki lit með því að vísa á greinina eftir Indriða Aðalsteinsson á Skjaldfönn á visir.is. Greinin er nokkuð góð og talsvert skáldleg, eins og hans er von og vísa.

Svarið eftir Jón Kristjánsson alþingismann er ekki síður merkilegt, en það birtist einnig á visir.is. Ég fékk að vísu engan botn í greinina og ef einhver finnur eitthvað út úr henni má hann eða hún endilega kommenta á það hér.

Ég verð aðeins að taka upp hanskann fyrir íslenskum fjárbændum. Þeir vinna eins og skepnur og hafa lítið sem ekkert upp úr því. Það telst víst ekki mikið að fá 17 þúsund krónur fyrir ull af hátt í 300 fjár.

Það skal tekið fram að Jón Kristjánsson er velkominn að Skjaldfönn hvenær sem hann vill! Bara ef hann hefur tíma, það tekur jú 5 tíma að komast þangað...


Hugleiðing um viðhorf til kvenna

Þá er ég nú bara komin í sveitina og því dottin aðeins út úr umræðunni á meðan. Hér erum við nefnilega svo afskekkt að það næst ekkert útvarp nema á langbylgju, pósturinn kemur einu sinni í viku og með honum blöð vikunnar (nýjasta blaðið er samt alltaf frá deginum áður), myndin í sjónvarpinu á það til að verða óskýr og síminn að detta út. Auðvitað næst ekkert GSM samband en internetið er komið hingað, nema það er ekki möguleiki á ADSL heldur bara ISDN sem er svo hægt að það þarf sérstaka túrbóstillingu þar sem notað er upphringisamband til að ná í flestar síður. Þetta er því mín afsökun fyrir að skrifa ekki mikið þessa dagana.

Síðasti pistillinn minn fór út í umræður um það hversu "gott" við einstæðu foreldrarnir höfum það á barnabótunum okkar. Það kom málinu bara ekkert við. Það sem ég vildi segja með þessu var að þar sem við erum eina fyrirvinna fjölskyldunnar fáum við réttmætan afslátt fyrir dvöl barna okkar á leikskólanum. Þegar börnin verða 6 ára og fara í grunnskóla (sem er skylda) hækka fjárútlát okkar vegna þeirra um rúm 36%, þar sem afslátturinn hefur verið tekinn af okkur, á meðan þau lækka um tæp 10% fyrir tvo einstaklinga með barn. Það gerir fjárhagsstöðu okkar veikari en foreldra í sambúð og félagslega stöðu barna okkar verri en þeirra sem eiga tvo foreldra. Það verður nefnilega alltaf dýrara og dýrara að eiga börn eftir því sem þau eldast, ef einhver skyldi ekki hafa tekið eftir því. Þetta bitnar því fyrst og fremst á börnunum. Og ÞAÐ er óréttlátt.

Ég hef það stundum á tilfinningunni að það sé ráðist svona á einstæða foreldra vegna þess að þeir eru að miklum meirihluta konur. Sumir karlmenn (sérstaklega) virðast ekki geta þolað það að konur komist áfram af sjálfsdáðum. Eða er það eitthvað annað sem drífur þá áfram í að rakka niður allt sem konum verður ágengt í réttlætisátt? Eru þeir kannski með minnimáttarkennd? Hver veit hvað það er, en hafið þið hugsað út í hversu mörg neikvæð orð eru til yfir konur og hversu fá eru til yfir karla? Ég ætla ekki að telja upp þessi orð hér, enda hæfa þau ekki öll viðkvæmum sálum, en tvö orð vil ég minnast á og það eru orðin "bjargvættur" og "óvættur". Bæði orðin eru upprunalega kvenkynsorð en af einhverjum ástæðum er "bjargvættur" nánast alltaf notað í karlkyni (bjargvætturinn, um bjargvættinn) en "óvættur" í kvenkyni (óvætturin, um óvættina). Endurspeglar þetta kannski viðhorfið í samfélaginu til kvenna enn þann dag í dag? Ég bara spyr...


Óforskammaðir tannlæknar

Meira um tannlæknamálið. Nú kemur í ljós að það er ekki nóg með það að himinn og haf sé á milli gjaldskrár tannlækna og Tryggingastofnunar heldur rukka sumir tannlæknar fyrir þjónustu sem ekki er beðið um og ekki sagt frá fyrirfram að fylgi með í pakkanum. Þetta á þó líklega helst við um barnatannlækna, a.m.k. ef marka má frétt í Fréttablaðinu í dag þar sem móðir þriggja ára barns þurfti að borga 12.500 krónur fyrir skoðun fyrir barnið sitt. Þetta er náttúrlega bara yfirgengilegt verð. En hvað kemur í ljós þegar reikninurinn er skoðaður? Jú, aðeins rétt um helmingur verðsins er fyrir skoðunina, hitt er fyrir "atferlismeðferð" og fræðslu.

Atferlismeðferð er "til að aðlaga börn komum á tannlæknastofur", svo vitnað sé í tannlækninn sjálfan. Ekki eru öll börn hrædd við tannlækna því eins og við vitum er ótti við eðlilega hluti lært atferli svo ef enginn hefur sagt barninu að tannlæknar séu vondir eða það hefur ekki slæma fyrri reynslu af þeim þá er engin ástæða til að ætla að það þurfi að "aðlaga þau komum á tannlæknastofur".

Fræðslan fólst í því, eftir því sem móðirin best vissi, að tannlæknirinn sagði barninu að það væru margir sykurmolar í gosdrykkjum og að hún þyrfti að bursta vel í henni tennurnar. Ekkert sem hún vissi ekki fyrir. Og fyrir það þurfti hún að borga 3.500 krónur.

Tannlæknarnir sjálfir eiga ekki að standa í því að uppfræða börnin um umhirðu tannanna. Foreldrarnir geta sjálfir uppfrætt þau um svona sjálfsagða hluti. Dýpri fræðsla, eins og hvernig á að bursta tennurnar og hvers vegna tennurnar skemmast ef maður burstar þær ekki, á að vera á ábyrgð skólanna. Þegar ég var lítil kom kona á hverju einasta ári (eða a.m.k. nokkuð oft) með stóran tanngarð og risatannbursta með sér og kenndi okkur að bursta rétt og hvað gerðist ef við gerðum það ekki. Fræðslan þyrfti að byrja strax í leikskóla, þegar börnin eru hvað móttækilegust fyrir allri fræðslu. Í staðinn hefur fjárstyrkur til tannfræðslu í skólum verið skorinn verulega niður og foreldrar þurfa að borga brúsann, óumbeðið.

Er nema von að fólk veigri sér við að fara með börnin til tannlæknis?

Ég sagði í fyrri pistli mínum um tannheilsu barna að tannlæknar væru á hinum frjálsa markaði þar sem markaðshyggjan og samkeppni ætti að ríkja. En þeim er á sama tíma bannað að auglýsa sig. Verðskrá tannlækna er mjög mismunandi og getur munað æði miklu á verði fyrir sömu verk. Hvernig á fólk að vita hvert er best að fara ef þeir mega ekki auglýsa? Oftast nær veit maður ekki einu sinni hvað maður á að borga fyrr en að því kemur. Ég hef a.m.k. aldrei séð neina gjaldskrá hjá mínum tannlækni. Ég er bara svo heppin að hafa fundið tiltölulega ódýran tannlækni, vegna þess að mér var bent á hann. Mér finnst bara mjög undarlegt að henda tannlæknum út á hinn frjálsa markað en banna þeim um leið að auglýsa sig. Hvers konar samkeppni er það?

Að lokum vil ég benda barnafólki með lítið á milli handanna að fara með börnin í Tanngarð þar sem tannlæknanemar skoða og gera við tennurnar þeirra undir styrkri leiðsögn, ÓKEYPIS.


Umbúða- og efnafargan

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum við þurfum allar þessar umbúðir utan um matinn okkar. Við hendum þeim hvort sem er. Oft þarf maður að taka vöruna upp úr kassanum fyrst og síðan úr pokanum og jafnvel úr enn einum umbúðunum. Maður kaupir fimm sneiðar af kjötáleggi dýrum dómum í nánast þyngd sinni af plasti. En þegar grænmetið og ávextirnir er allt pakkað inn í plast þá segi ég hingað og ekki lengra! Oft sé ég hverri einustu papriku pakkað inn í plast sem er vandlega búið að bræða saman til að loka. Það er ekki hægt að kaupa lífrænt ræktaðar appelsínur og epli vegna þess að það er búið að setja það á frauðbakka og pakka inn í plast. Og einu íslensku tómatarnir sem fást á veturna eru nokkrir saman á slíkum bakka. Erlendu tómatarnir eru yfirleitt ógeðslegir svo ég kaupi ekki tómata á veturna lengur nema tilneydd.

Fyrir utan hvað það er óhollt að borða ávexti og grænmeti sem hefur legið lengi í plastumbúðum (sbr. rannsóknina sem gerð var á tengslum gosdrykkja í plastflöskum og getuleysi karlmanna) og fyrir utan hvað grænmetið lítur lengi vel út í plastinu en lyppast svo niður þegar maður opnar það, þá er þetta neyslustýring á háu stigi. Ég VERÐ að kaupa sex tómata í einu. Og ég VERÐ að kaupa 300 g af spínati, þó það sé alltof mikið og helmingurinn af því verði ónýtur. Ég VERÐ líka að kaupa 250 eða 500 g af kaffi, 1 eða 2 lítra af ís, hálfa eða heila tylft af eggjum, 350 eða 600 g af nautahakki og svona mætti lengi telja. Þess vegna fer ég alltaf í fiskbúðina á horninu til að kaupa fisk. Þar get ég fengið 264 g af fiski ef ég vil.

Hversu margir skyldu lesa utan á umbúðirnar áður en þeir kaupa þær? Sá sem leggur í vana sinn að gera það veit að maturinn sem okkur stendur til boða er fullur af MSG, Aspartam, rotvarnarefnum og eflaust ýmsu fleiru sem er engan veginn gott fyrir okkur. Það eru til mörg E-efni sem eru leyfð þrátt fyrir að það sé ekki vitað hvaða áhrif þau hafa á okkur til langs tíma. Eru þessi efni virkilega nauðsynleg? Þau hafa áhrif á bragðið, svo mikið er víst. Því ferskari sem fæðan er, því betri á bragðið og því betur líður okkur af henni. Af sömu sökum: Því meira af aukefnum í fæðunni, því flatara bragð og því verr líður okkur af henni. Hvers vegna eru rotvarnarefni í öllum íslenskum ostum en ekki í þeim erlendu? Til hvers eru rotvarnarefni í reyktu kjöti? Er reykingin ekki geymsluaðferð? Ég hef alltaf haldið það en það er kannski misskilningur. Mér blöskrar að þurfa að kaupa saltvatn á nærri 2000 kr. kílóið með kjúklingabringunum mínum, auk einhverra óútskýranlegra bragðefna og jafnvel rotvarnarefna.

Hvert viljum við stefna í þessum málum? Ég legg til að við sniðgöngum mat sem inniheldur þessi óþörfu efni. Einhversstaðar heyrði ég af því að fólk stæði við kassana þegar það væri búið að borga og tæki utan af matnum allar óþarfa umbúðir. Það finnst mér góð hugmynd. Rífum af allar þessar óþörfu umbúðir og skiljum þær eftir á kössunum. Þá sést hversu mikið rusl og þar með mengun hlýst af þeim. Íslendingar! Sýnum samstöðu einu sinni á ævinni!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Höfundur

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Spurt er

Hvernig húsi viltu helst búa í?

Tónlistarspilari

Facto Delafé Y Las Flores Azules - Enero En La Playa

325 dagar til jóla

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband