Færsluflokkur: Lífstíll

Hugleiðing í hraða hversdagsins

Ég eyddi fyrri hluta þrítugsaldursins í vonlausu sambandi. Ég var vissulega ástfangin en er ekki oft sagt að ástin sé blind? Í öllu falli skipti það mig engu máli lengi vel að maðurinn var að eyðileggja líf mitt. Síðan varð ég þyngri og við það hvarf ástin eins og dögg fyrir sólu og það slitnaði upp úr sambandinu. Undarlegt, en heppilegt.

Síðan tók við langt tímabil sem snerist eingöngu um sambandið við barnið mitt og það var ekkert rúm fyrir aðra nýja manneskju. Enda erum við mjög samrýmd núna. Eftirfarandi samtal er mjög algengt milli okkar:Stórborgarinn

"Veistu að þú ert uppáhaldssonur minn?"

"En ég er eini sonur þinn!"

"Það breytir því ekki að þú ert uppáhaldssonur minn."

"Og þú ert uppáhaldsmamma mín."

Og allt í einu var ég orðin þrítug og gerði mér grein fyrir því að einhleypum karlmönnum á mínum aldri var farið að fækka verulega á landinu. Auk þess tel ég karlmönnum yfir þrítugu það alls ekki til tekna að vera ennþá piparsveinar. Þá er líklega eitthvað að þeim. Annað hvort eru þeir hreinlega ljótir og leiðinlegir inn við beinið eða þeim helst ekki á konum og geta ekki verið í alvöru sambandi af sálfræðilegum ástæðum. Ég sá að til þess að eignast mann yrði ég að grípa þá sem skilja, fljótlega eftir skilnaðinn því þeir virðast ganga hratt út aftur.

Sá hængur er þó á að ég vil alls ekki mann sem er nýskriðinn úr öðru sambandi. Ég vil ekki mann sem á eftir að gera upp sín mál, sérstaklega andlegu hliðina en hún tekur yfirleitt mun lengri tíma en sú fjárhagslega. Ég vil sko ekki eiga á hættu að vera einhver staðgengill eða haldreipi.

En á svona hugsunarhætti kemst ég víst ekki langt í rómantíkinni. Maður á sennilega bara að fylgja hjartanu, eins og ég segi alltaf sjálf við aðra. Stundum þarf maður að sleppa taumnum og viðurkenna að maður hefur ekki stjórn á öllu.

Það endar líklega með því að ég sit fyrir ekklunum á Hrafnistu. Gallinn er bara sá að konur lifa mennina sína oftar en hitt svo hætt er við að úrvalið verði fábreytt...


Að vera skrýtinn

Sérstaklega þótti ég skrýtin í ónefndu Mið-Ameríkuríki vegna þess að ég talaði svo lítið. Ég bjó þar í eitt ár til að byrja með, sem skiptinemi, og þökk sé góðum vini (!) frétti ég að fólki fyndist ég furðuleg manneskja vegna þess að hríðskotabyssan gekk ekki út úr mér þegar yrt var á mig. Ég var þá afar ung og óreynd og fannst bara algjör óþarfi að kjafta út í eitt við fólk sem ég þekkti sama og ekki neitt. Verst fannst mér þegar einhver vatt sér upp að mér á mannamótum og sagði glaðlega: "Þú ert þögul!" Eins og það myndi eitthvað hjálpa! Þá var ég vön að líta á viðkomandi, kreista fram þvingað bros og segja: "Þú tekur aldeilis vel eftir!"

Nú, 14 árum síðar, hef ég þjálfast töluvert í kurteisishjali, sem virðist vera nauðsynlegt tæki til að lifa af í þessum harða heimi. Hér á Íslandi dugir þekking mín til og vel það, en í Mið-Ameríkuríkinu telst ég enn vera á byrjendastigi og þarf að hafa mig alla við til að dragast ekki aftur úr. Eftir hvert samtal er ég svo andlega uppgefin að ég neyðist til að láta mig hverfa í klukkutíma eða svo, til að jafna mig í einrúmi.

Minn fyrrverandi var ekkert öðruvísi en aðrir samlandar hans. Hann gat látið dæluna ganga endalaust, en það var ekki fyrr en brestir voru farnir að koma í sambandið að ég tók eftir því að ég var oft þreytt eftir mikla samveru við hann. Svo varð ég ólétt og þá slitnaði upp úr sambandinu og þá varð ég hreinlega uppgefin eftir að tala við hann. Málið var að það var aðallega hann sem talaði.  Og það saug úr mér alla orku.

Vinurinn sem leiddi mig í allan sannleikann um hvað fólki fannst um mig var minn fyrrverandi.

Í mínum menningarheimi þykir það löstur að tala of mikið. Í Mið-Ameríku þykir það löstur að tala of lítið. Sorrí Stína.


Af hverju er ég svona?

Oft velti ég því fyrir mér hvers vegna ég sé alltaf öðruvísi en allir hinir. Sem barn og unglingur var þetta stundum dálítið erfitt, enda gangast börn upp í því að falla inn í hópinn og ekki hjálpaði til að vera einkabarn. Eitt af því sem ég man eftir frá því fyrir tíu ára aldurinn var að ég átti ekki systkini. Það áttu allir systkini! Meira að segja besta vinkona mín, sem var líka einkabarn, átti hálfsystur. Hún var að vísu afrakstur framhjáhalds, en systir engu að síður.

Eftir mikið suð eignaðist ég loksins systur. Þá var ég orðin tíu og hálfs árs. Það var gaman framan af að eiga litla systur sem hægt var að kjassa af og til en síðan þurfti ég að fara að passa hana. Einum of oft, að mér fannst. Mér fannst ekki gaman að passa börn, líkt og flestum jafnaldra kynsystrum mínum. En ég gerði það nú samt, af eintómri skyldurækni. Eftir á að hyggja held ég að ég hafi ekki verið látin passa mjög oft.

Ennþá hef ég ekkert sérstaklega gaman af börnum, nema þau séu klár, kurteis og skemmtileg. Og í mínu starfi hitti ég mörg svoleiðis börn. Ég hef heldur ekki gaman af söngleikjum og spurningakeppnum. Frík.

Ég nýt þess ekki að spjalla um einskis verða hluti við ókunnugt fólk. Ég kann ekki við að hafa sítt hár og lita það aldrei. Ég hef aldrei farið í vax. Ég gæti aldrei gengið með gervineglur. Ég get vel farið út úr húsi án maskara eða varalits. Mér finnst leiðinlegt að horfa á rómantískar gamanmyndir. Mér fannst Moulin Rouge hundleiðinleg. Mér finnst Tom Cruise ljótur. Ég hef áhuga á gömlum hlutum. Ég trúi ekki á Guð eða Herbalife. Mér líkar illa að vinna undir öðrum. Ég get ekki drukkið hvaða kaffi sem er, það verður að vera gott espresso. Ég á ekki kærasta. Ég er sérvitur og þarf að gera suma hluti á minn hátt. Ég læt engan segja mér að eitthvað sé ekki hægt...

Sumum finnst ég skrýtin. Mér er alveg sama.


Núið

Mig langar að deila með ykkur þeim frábæru glaðningum sem ég hef fengið á Núinu undanfarnar vikur, en þeir eru m.a.:

25% afsláttur í brúnkumeðferð.

25% afsláttur á veitingastað (hægt að nota sunnudaga til miðvikudaga).

Rosalega mörg 2 fyrir 1 tilboð á vídeóleigum.

Mögnuð pizzutilboð.

45% afsláttur af gistingu (einungis 7000 kr.).

1500 kr. afsláttur af nuddi og maska.

Frí klipping þegar komið er í strípur, lit eða permanent.

1500 kr. afsláttur af cellulite nuddi.

25% afsláttur af fótsnyrtingu.

4000 kr. afsláttur af kortum í vaxtamótun.

Ef keypt er ásetning gelnagla fylgir brúnkumeðferð FRÍTT með.

20% afsláttur af heilnuddi.

1000 kr. afsláttur af Fake it! brúnkumeðferð.

1000 kr. afsláttur af afeitrandi "detox" sjávarleirmeðferð.

W00t

Ég er alltaf að bíða eftir að fá flug til Parísar eða Barcelona en það virðist ætla að standa á sér. Ef ég bara gæti fengið frítt bensín þá væri það þó eitthvað gagnlegt!

Ég auglýsi hér með eftir fólki sem hefur áhuga á áðurnefndum glaðningum því ég má nefnilega gefa öðrum þá.


Námskeið og ball um helgina!

Um helgina fáum við að sjá árangur af erfiði okkar undanfarið ár eða svo, þegar einn fremsti Lindy Hop dansari, Andrew Sutton, kemur til landsins í boði Lindyravers og kennir á námskeiði um helgina. Það verður dagskrá allan daginn báða dagana fyrir bæði byrjendur og lengra komna og síðan endar þetta allt með balli ársins á sunnudagskvöldið í Iðnó! Þar ætlar Stórsveit Suðurlands að spila fyrir dansi frameftir kvöldi og Ó BOY! það verður sko dansað.

ALLIR VELKOMNIR, bæði á námskeið og ball.

Ég tek það fram að Lindy Hop er áfengislaus dans og ekki mælt með því að vera undir áhrifum þegar dansað er. Það getur haft hræðilegar afleiðingar í för með sér.

Ég meina, hvað haldið þið að myndi gerast ef þessi hópur væri dauðadrukkinn?...

Nánari upplýsingar á www.lindyravers.com.

 


Bóhemlíf? Ég held ekki...

Ég komst að því fyrir stuttu að það er ekki ennþá kominn tími á bóhemlíf hjá mér. Það var indælt á meðan á því stóð, í janúar, en maður lifir ekki á því að vera bóhem. Eftir að hafa fengið síðasta mánuðinn greiddan, eða helminginn af sumarorlofinu, eftir því hvernig á það er litið, komst ég að því að mig vantaði vinnu. Víst er ég í hlutastarfi við að kenna yfir netið, en það er ekki nóg til að lifa á og því ákvað ég að láta undan þrýstingi og fara að vinna á frístundaheimili. Og það er betur borgað en ég átti von á!

En það veldur hins vegar því að ég er aftur komin í nánast sama farveginn og ég var í áður og stressið fer afar illa í þann stutta, sem er aftur byrjaður að fá bræðisköst. Um daginn fékk hann kast vegna þess að hann var búinn að týna einhverju úr nýja Bionicle-kastalanum sem hann keypti fyrir afmælispeningana sína. Með bræðiskasti á ég við að hann öskrar, lemur, hendir niður hlutum og þess háttar. Ég er búin að læra að það þýðir ekki fyrir mig að æsa mig, heldur er nauðsynlegt að ég haldi ró minni en sé ákveðin við hann um leið. Og um leið og ég sé tækifæri til að gera grín að einhverju, einhverju sem honum finnst líka fyndið, verð ég að grípa það og nota til að fá hann til að hlæja og þá fyrst róast hann niður.

Húmorinn er til margra hluta nytsamlegur...

En það sem ég hef lært á þessu er eftirfarandi: Annað hvort á maður pening þannig að maður þarf ekki að velta fyrir sér hverri krónu, eða nýtur lífsins stresslaust, hefur tíma fyrir börnin, lærir frönsku og dansar af lífs og sálar kröftum, eða hvað það nú er sem fólki finnst gaman að gera. Sem einstæð móðir hef ég ekki tíma fyrir hvort tveggja.

Ég hlakka til að verða blönk...


Hvíta beltið í höfn!

Það kom að því að ég næði hvíta beltinu í Ju jitsu. Það leit ekki vel út lengi vel, veikindi komu í veg fyrir að ég gæti hreyft mig án þess að fá hóstakast svo ég var frá æfingum í þrjár vikur. Þegar ég kom aftur fannst mér ég vera búin að gleyma öllu. En þessi ljúfi, en þó harði, þjálfari stappaði í mig og fleiri stálinu og það var ákveðið að prófa okkur í næsta tíma, sem var í dag.

Jujitsu belts

Enn einum áfanga í lífinu náð!


Rússíbani

Mér finnst ég vera í rússíbana, mér rétt tekst að gera hlutina áður en þeir þjóta framhjá á ofurhraða. Stundum gleymi ég samt einu og einu atriði og þarf þá að redda því einhvern veginn fyrir horn. Svona er kennarastarfið! Önn eftir önn er þetta svona og ég hef engan tíma til að lifa. Hversu lengi getur maður haldið svona áfram?

Ég segi það ekki að kannski er þessi önn aðeins verri en margar aðrar þar sem ég hef verið mjög dugleg að finna mér eitthvað að gera. Hér eru nokkur dæmi:

  • Varaformennska í Félagi einstæðra foreldra.
  • Ju jitsu tvisvar í viku.
  • Lindy hop alltaf þegar ég hef tíma (!!).
  • Fiðlutímar hjá Erik og æfa sig inn á milli.
  • Æfa mig á fiðluna (ég þarf líka að læra...)
  • Heimilisstörf.
  • Ala upp barn.
  • Helluleggja garðinn.
  • Setja upp panil í borðstofunni.
  • Læra ítölsku í fjarnámi.

Þetta er ekki í röð eftir mikilvægi. En ég held að þrátt fyrir að það sé mikið að gera utan vinnu þá sé nauðsynlegt fyrir aktíva manneskju eins og mig að hafa eitthvað skemmtilegt að gera. Og svo eyði ég tímanum í að blogga!!


"Coz we're flyin', like Lindy did"

Komið þið sæl. Ég heiti Björg og er lindyhoppari. Mig langar að segja ykkur aðeins frá þessari hræðilegu fíkn sem Lindy Hop er og deila með ykkur þrautagöngu minni.

Ég byrjaði að stunda Lindy Hop fyrir tæpu ári síðan. Eftir það var ég ekki sama manneskjan. Lindy Hoppið heltekur mann og veldur rosalegri vímu sem lýsir sér í því að manni finnst maður svífa í loftinu og snúast hring eftir hring við fjöruga tónlist. Þetta er auðvitað mjög ávanabindandi því víman veldur mikilli vellíðan á meðan á henni stendur. En eftir að henni lýkur finnur maður fyrir þreytu í vöðvum, sérstaklega fótleggjum, mæði og tímabundnum svima. Ekki skemmtilegt það!

Þetta byrjaði bara smátt, stöku æfing af og til, vinur minn átti það til að hringja í mig og fá mig með sér og brátt fór hann að hringja á virkum kvöldum. Smátt og smátt fór mér að finnast þetta svo gaman að ég vildi fjölga æfingum og þetta varð fljótlega reglulegt, svona einu sinni í viku. Síðan fóru fleiri að slást í hópinn, litla systir mín byrjaði í þessu með okkur (fyrirgefðu mér, systa!) og kærastinn hennar og svo fór að tínast í hópinn eitthvert ókunnugt fólk. Eða fólk sem ég þekkti a.m.k. ekki. Umfangið óx og óx. Núna eru lindyhopparar komnir með heimasíðu með spjallborði þar sem þeir ræða þetta hrikalega dóp, ráða ráðum sínum, skipuleggja æfingar, reyna að selja stöffið (sem er reyndar ókeypis) og reyna með öllum ráðum að stækka hópinn. Ég veit ekki hvort ég á að vera að gefa upp slóðina á þessa heimasíðu, börn gætu verið að lesa þetta.

Hér getið þið séð fólk í allsvakalegri Lindy Hop vímu, sem víti til varnaðar. Þetta myndskeið er frá árinu 1941, en Lindy Hop hefur verið við lýði síðan 1926 og er því alls ekki nýtt af nálinni: Hellzapoppin. Sjá einnig tengla hér vinstra megin.

 Hér eru meiri upplýsingar um efnið.

Ég er enn ekki orðin edrú, ég er heltekin...


Um bloggið

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Höfundur

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Spurt er

Hvernig húsi viltu helst búa í?

Tónlistarspilari

Facto Delafé Y Las Flores Azules - Enero En La Playa

336 dagar til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband