Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga

Þegar ég var búin með fæðingarorlofið mitt hafði ég ákveðið að fara í skóla. Ég átti smá pening til að lifa af fram að áramótum, ekki mikið, ég var nægjusöm í þá daga. Það var nóg fyrir fjóra mánuði, en ekki meira. Ég var nefnilega svo heppin að hafa keypt mína fyrstu íbúð á 4,5 milljónir, í þá góðu gömlu daga... Ég átti semsagt íbúð og þurfti ekki að borga mikið af henni.

Ég ákvað semsagt að fara í skóla, átti smá pening og var búin að fá vilyrði fyrir námsláni. Allt í góðu. Vandamálið var bara að fæðingarorlofinu lauk mánuði áður en ég átti að byrja í skólanum. Ég þurfti því að láta peninga sem rétt dugðu fyrir fjóra mánuði duga í fimm. Hókus pókus. Það eina sem mér datt í hug var að fara til ríkisskattstjóra og fá fyrsta hluta barnabótanna greiddan fyrirfram. Ég var nefnilega svo óheppin að fæða barn í lok janúar, svo barnabætur fóru ekki að berast mér fyrr en tæpu ári síðar.

Að sjálfsögðu var þetta ekki hægt, mér var bent á félagsþjónustuna en mér fannst ekki taka því fyrir einn mánuð. Síðar komst ég að því að það hefði ekki verið glæta að ég fengi aðstoð frá félagsþjónustunni þar sem ég átti íbúð, bíl og smá pening. Til að fá aðstoð frá henni máttu ekki eiga NEITT.

Nú hef ég verið að grúska í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og ég get hvergi séð neitt um það hver skilyrðin eru til að fá aðstoð. Þar segir m.a.:

"I. kafli. Markmið laganna.
1. gr. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því
   a. að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti,
   b. að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna,
   c. að veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi,
   d. að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.
Við framkvæmd félagsþjónustunnar skal þess gætt að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar."

Í IV. kafla, Almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu, er talað um að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð. Síðan er talað um hver á rétt til þess, þ.e. þeir sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, hvað skuli gera ef einhver þarf á aðstoð að halda utan sveitarfélags síns og um rétt erlendra ríkisborgara. Hvergi er talað um að viðkomandi megi ekki eiga neinar eignir. Eða hvað? Ef einhver fróðari en ég getur bent mér á hvar það stendur skal ég fegin lesa þá málsgrein.

Sá sem á eigin íbúð borgar venjulega minna í afborganir en hann / hún myndi borga í leigu. Það er skiljanlegt ef viðkomandi borgar fulla leigu að hann / hún nái ekki endum saman. Sá eða sú sem nær ekki endum saman ÞRÁTT FYRIR að vera í eigin húsnæði er enn verr staddur / stödd. Svo ég tali nú ekki um hvað bíll getur verið nauðsynlegur hlutur þegar maður er með börn til að geta stundað hvaða vinnu sem er.

Hér er brotalöm í kerfinu. Það sér hver maður. Við skulum bara vona að núverandi félagsmálaráðherra skoði málið og breyti þessu. Nú eða þá Björk Vilhelms. Ég treysti þeim báðum til þess, svo lengi sem þær vita af vandamálinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Hérna eru lög fyrir Félagsþjónustuna í Rvk: http://www.rvk.is/DesktopDefault.aspx/tabid-35/?cID=5&sID=129

Ég sé þetta hvergi en veit alveg að kröfurnar eru óþolandi. Það er ekkert sem heitir neyðaraðstoð. Þarna er líka talað um að þeir láni í sérstökum aðstæðum. Síðast þegar ég spurði að því þá var mér sagt að slíkt væri liðin tíð. Þetta stendur nú samt þarna á vef Reykjavíkurborgar. Ég tryllist þegar ég byrja að tala um þetta óþolandi batterí.

...svo eru reyndar þjónustumiðstöðvar með sínar eigin reglur. Aðstoð getur verið misjöfn eftir hverfum. 

Laufey Ólafsdóttir, 20.10.2007 kl. 09:04

2 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Jú, hérna er þetta:

"Eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði sem

umsækjandi eða fjölskylda hans býr í og eina fjölskyldubifreið, eða hafi hann nýlega selt

eignir sínar, skal honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur hans

séu lægri en grunnfjárhæð.1)

1) Breyting tók gildi 10. febrúar 2004

Maður á semsagt að fara í bankann og fá lán út á eignirnar og alveg endilega steypa sér í meiri skuldir. Þegar maður fer svo að borga af láninu þá er mánaðarleg greiðslubyrði orðin enn meiri en áður og fólk þarf enn meira á fjárhagsaðstoð að halda en áður. En svo getur maður auðvitað selt ofan af sér húsnæðið og losað sig við eina samgöngutækið sem virkar hér í bæ og hækkað greiðslubyrði á mánuði enn meira með því að fara að leigja!! Frábært kerfi !

Reyndar stendur í þessum lögum: "Eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans býr í..." Ég skil þetta ekki öðruvísi en að maður megi eiga íbúð...

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 20.10.2007 kl. 15:52

3 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

...já, íbúð og eina fjölskyldubifreið en ekki eignir umfram það. Ég held að ráðgjafarnir túlki þessa grein hver með sínu nefi.

Laufey Ólafsdóttir, 20.10.2007 kl. 19:45

4 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Ég skildi þetta þannig að eigi umsækjandi eina fjölskyldubifreið skal honum vísað á...blablabla. En það er þá engin lagastoð fyrir því að neita fólki um fjárhagsaðstoð þótt það eigi íbúð og bíl?!

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 20.10.2007 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Höfundur

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Spurt er

Hvernig húsi viltu helst búa í?

Tónlistarspilari

Facto Delafé Y Las Flores Azules - Enero En La Playa

235 dagar til jóla

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 23446

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband