Femínismi og klám

Til er hópur fólks sem lítur á sig sem jafnréttissinna en telur jafnframt að femínistar séu öfgahópur móðursjúkra og biturra kellinga sem hafa ekkert betra við sinn tíma að gera en að tína til dæmi um tilvik þar sem konur eru settar í fórnarlambshlutverkið. Það er hins vegar mikill misskilningur hjá þessu fólki. Femínistafélag Íslands skilgreinir femínista sem "karl eða konu sem veit að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað í því". Að öðru leyti er hugtakið femínismi mjög vítt og erfitt að skilgreina í stuttu máli. Til eru margar greinar femínisma, t.d. frjálslyndur femínismi, róttækur femínismi og póstmódernískur femínismi. Ef einhver vill lesa sér betur til um það hefur Soffía Auður Birgisdóttir skrifað greinaflokk um þetta efni (Frjálslyndur femínismi, Marxískur femínismi, Róttækur femínismi, Femínismi og sálgreining, Femínismi og póstmódernismi).

Það er allt í lagi að vera ekki femínisti. En áður en fólk dæmir femínista sem einsleitan öfgahóp og setur sig upp á móti þeim, sem eru auðvitað öfgar í sjálfu sér, mæli ég með að það kynni sér málið.

Eitt þeirra málefna sem margir femínistar láta sig miklu varða er klám. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að tala um klám án þess að tala um ofbeldi í leiðinni, bæði andlegt og líkamlegt. En til eru þeir sem staðhæfa að margar konur njóti þess að stunda klám. Kannski eru það þeir sömu og vilja alls ekki láta bendla sig við femínisma. Ég bendi á þetta sem dæmi um það. Takið eftir athugasemdunum og hversu fáar konur tjá sig um efnið.

Þetta er uppáhalds málsgreinin mín í bloggpistlinum sem ég vitnaði í áðan: "En umræðan um að klám sé eitthvað alsæmt finnst mér á villigötum.  Klám hefur meira að segja hjálpað mörgum, hefur reynst fín afþreying fyrir miljónir manna.  Konur hafa öðlast peninga og völd vegna kláms."

Fantasían um hina hamingjusömu klámmyndastjörnu virðist því enn lifa góðu lífi. En jafnvel unglingarnir gera sér grein fyrir skuggahliðum klámsins, eins og Andrea J. Ólafsdóttir og Hjálmar Sigmarsson komust að við rannsókn sem þau gerðu síðastliðið sumar og hægt er að lesa um hér. Við rannsóknina kom í ljós að unglingar telja að klámi sé þröngvað upp á þá með auglýsingum í fjölmiðlum, á Netinu og víðar. Og þeir eru ekki sáttir við það:

"Andrea segir merkilegt að sjá hverjar afleiðingar klámsins séu að mati unglinganna. "Stelpurnar voru sammála um að klám væri niðurlægjandi, ógeðslegt, óraunverulegt og fáránlegt." Um þetta voru flestir strákarnir líka sammála."

Ein skuggahliðin á klámi er líkamlegt atgervi leikaranna, sérstaklega kvennanna, sem seint getur talist heilbrigt. Dagný Kristjánsdóttir prófessor talar um þetta í grein sinni um klámmyndir á kistan.is. Þar segir hún m.a.:

"Nýrri klámmyndir eru undarlega ólíkar myndum áttunda áratugarins. Leikkonur þá voru engar feitabollur en núna eru þær orðnar svo grannar að þær líkjast meira tískufyrirsætum en venjulegum konum. Það þýðir að fituvefirnir eru upp urnir af líkömunum og brjóstin þar með, svo að það verður að búa þau til aftur með sílíkoni og þar sem þau verða að vera mjög stór verða þau eins og fótboltar framan á drengjalegum líkömunum. Kyntákn kvenna, brjóst og mjaðmir eru sem sagt afmáð og búin til aftur í ýktu formi sums staðar. Þær eru rakaðar að neðan til að myndavélaraugað sjái allt og svona konur hefur guð aldrei skapað. Þessar stúlkur eru eins og sílíkonur (hugtakið frá Úlfhildi Dagsdóttir) eða skúlptúrar, stílfærðar, mótaðar og umbreyttar." Greinin er í heild sinni hér.

Önnur skuggahlið birtist í væntingum þeirra sem fara út í klámiðnaðinn, og þá sérstaklega kvennanna. Dagný segir um þetta í sömu grein:

"Margar leikkvennanna fara út í þennan bransa af því að þær halda að þær verði frægar og geti fært sig yfir í alvöru kvikmyndirnar. Það er mjög sorgleg blekking vegna þess að þær eru í raun að brenna allar brýr að baki sér. "

Þetta er stóra blekkingin í bransanum. Margir falla fyrir henni og eru bloggarar hér á blog.is þar engin undantekning: "Klám hefur meira að segja hjálpað mörgum, hefur reynst fín afþreying fyrir miljónir manna.  Konur hafa öðlast peninga og völd vegna kláms." Klám er meira en bara "fín afþreying", hún eyðileggur líf margra einstaklinga með því að binda þá á klafa klámiðnaðarins fyrir lífstíð eða þar til orkan er búin. Klámlíferni er oftast óreglulegt líferni með tilheyrandi fylgifiskum, s.s. eiturlyfjum, átröskunum og kynsjúkdómum. Því fylgir einnig fyrirlitning samfélagsins. Erum við sátt við að börnin okkar verði hluti af þessu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk kærlega fyrir frábæran pistil.  Orð í tíma töluð.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.4.2007 kl. 18:09

2 identicon

Heyr heyr:) Hlakka til að lesa fleira skrifað af þér hér:) Kveðja Díana Ósk

Díana Ósk (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 22:26

3 Smámynd: Þórgnýr Thoroddsen

Mig grunar að stóra vandamálið sé dreifingin, ekki iðkunin. Netið hefur opnar flóðgáttir eftirspurnar og það eru ekki nógu margar sjálfviljugar konur til að anna þessarri eftirspurn. Ég sé fyrir mér konu sem á eigin vegum deilir af sér myndum á opnum amatör-vefsíðum á netinu. Ekkert að því, eða hvað? Ég sé ekkert að því að hún þjóni fýsn sinni, en ég sé að því að hún deili þessu opinberlega. Ef þetta efni myndi eingöngu fara milli hennar og einkavinar, hvort sem hún myndi þekkja hann persónulega eða bara gegnum netið, svo lengi sem það væri milliliðalaust þá fyndist mér það allt í góðu. Hennar einkamál. En þetta er á svo gráu svæði, virknin er ekki svona einföld. Heimurinn virkar ekki svona smurt.

Varðandi hvernig eigi að draga úr eftirspurn eftir klámi þá held ég að það þurfi að vinna að því í rólegheitunum, líkt og hvernig unnið er að því að stoppa reykingar. Þetta byrjar heima með virku eftirliti með börnunum okkar. Þetta er líklega svipað og með retturnar, ef börnin komast ekki á bragðið þá eru minni líkur til þess að þau verði fíklar. Mig vantar tölfræðina, þetta er bara svona "hönsj".

Þórgnýr Thoroddsen, 13.4.2007 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Höfundur

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Spurt er

Hvernig húsi viltu helst búa í?

Tónlistarspilari

Facto Delafé Y Las Flores Azules - Enero En La Playa

221 dagur til jóla

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 127
  • Frá upphafi: 23595

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 127
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband