Miðvikudagur, 19. september 2007
"Coz we're flyin', like Lindy did"
Komið þið sæl. Ég heiti Björg og er lindyhoppari. Mig langar að segja ykkur aðeins frá þessari hræðilegu fíkn sem Lindy Hop er og deila með ykkur þrautagöngu minni.
Ég byrjaði að stunda Lindy Hop fyrir tæpu ári síðan. Eftir það var ég ekki sama manneskjan. Lindy Hoppið heltekur mann og veldur rosalegri vímu sem lýsir sér í því að manni finnst maður svífa í loftinu og snúast hring eftir hring við fjöruga tónlist. Þetta er auðvitað mjög ávanabindandi því víman veldur mikilli vellíðan á meðan á henni stendur. En eftir að henni lýkur finnur maður fyrir þreytu í vöðvum, sérstaklega fótleggjum, mæði og tímabundnum svima. Ekki skemmtilegt það!
Þetta byrjaði bara smátt, stöku æfing af og til, vinur minn átti það til að hringja í mig og fá mig með sér og brátt fór hann að hringja á virkum kvöldum. Smátt og smátt fór mér að finnast þetta svo gaman að ég vildi fjölga æfingum og þetta varð fljótlega reglulegt, svona einu sinni í viku. Síðan fóru fleiri að slást í hópinn, litla systir mín byrjaði í þessu með okkur (fyrirgefðu mér, systa!) og kærastinn hennar og svo fór að tínast í hópinn eitthvert ókunnugt fólk. Eða fólk sem ég þekkti a.m.k. ekki. Umfangið óx og óx. Núna eru lindyhopparar komnir með heimasíðu með spjallborði þar sem þeir ræða þetta hrikalega dóp, ráða ráðum sínum, skipuleggja æfingar, reyna að selja stöffið (sem er reyndar ókeypis) og reyna með öllum ráðum að stækka hópinn. Ég veit ekki hvort ég á að vera að gefa upp slóðina á þessa heimasíðu, börn gætu verið að lesa þetta.
Hér getið þið séð fólk í allsvakalegri Lindy Hop vímu, sem víti til varnaðar. Þetta myndskeið er frá árinu 1941, en Lindy Hop hefur verið við lýði síðan 1926 og er því alls ekki nýtt af nálinni: Hellzapoppin. Sjá einnig tengla hér vinstra megin.
Hér eru meiri upplýsingar um efnið.
Ég er enn ekki orðin edrú, ég er heltekin...
Lífstíll | Breytt 20.9.2007 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 15. september 2007
Jafnrétti hvað??
Um daginn lenti ég í samræðum við einn nemanda minn, sem reyndar er frænka mín líka, sem kannski skýrir hennar djúpu hugsun þrátt fyrir ungan aldur . Hún sagði mér ýmislegt sem ég vissi ekki og varð þess valdandi að ég skildi eitt og annað. Eitt af því sem hún sagði mér var að margar unglingsstelpur spila sig heimskari en þær eru til að ganga í augun á strákunum. Og það virkar! Svo það segir okkur álíka mikið um strákana eins og stelpurnar, ekki satt? Hún sagðist einmitt eiga eina svona vinkonu, sem segir alltaf: "Ha? Hvað er það?" jafnvel þótt hún viti fullvel um hvað er verið að tala. Er þetta virkilega sexí núna? Að vera heimskur? Í eina tíð þótti sexí að vera gáfaður (og fallegur líka, auðvitað), er það liðin tíð hjá unga fólkinu?
Ég veit ekki mikið um "krúttkynslóðina", er þetta hún? Mér virðist jafnrétti kynjanna vera á miklu undanhaldi hjá unga fólkinu núna. Ég hef heyrt sögur um að stelpurnar vilji helst giftast ríkum mönnum og verða heimavinnandi húsmæður . Ég er víst ekki ein um þessa skoðun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 9. september 2007
Stefnum við á einkaframtakið í almannaþágu?
Ég hef aldrei skilið hvers vegna sumum finnst þurfa að skipta menntakerfinu í tvennt: opinbert og einka. Reynsla mín af því og skiptingu á fleiri sviðum eins og heilbrigðiskerfinu er sú að opinberi hlutinn verður sífellt verri á meðan einkageirinn getur borgað sínu starfsfólki betri laun og þar með fengið betra starfsfólk, fyrir utan að hafa peninga fyrir betri aðstöðu. Þannig að á meðan almenningur þarf að sætta sig við verri menntun og lengri biðraðir hjá lækninum geta hinir efnameiri borgað sig upp metorðastigann og fengið betri læknisþjónustu.
Hvar er réttlætið í þessu?
![]() |
Mikilvægt að fyrirtæki og einstaklingar efli skóla með fjárframlögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. september 2007
Til bloggara...
... sem nota svartan bakgrunn og hvíta stafi: BREYTIÐ ÞVÍ!! Allir sem hafa unnið eitthvað við textagerð og prentun vita að texta með svartan bakgrunn og hvíta stafi er erfitt að lesa. En fyrr má nú vera! Í gærkvöldi byrjaði ég að lesa eitt slíkt blogg en varð að hætta í miðju kafi þar sem stafirnir voru bókstaflega farnir að dansa um skjáinn (mér sýndist það vera jive), og ekki nóg með það heldur héldu þeir áfram að dansa þó ég færi yfir í annað. Og þeir héldu áfram að dansa, í þetta sinn samba, eftir að ég skellti aftur tölvunni og henti henni frá mér. Ég var á þessu stigi orðin viss um að ég væri dauðvona.
En til allrar hamingju lagaðist þetta fljótlega og ég róaðist niður, aftur ánægð með lífið og tilveruna. Tölvuna snerti ég þó ekki það sem eftir lifði kvölds.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 5. september 2007
Jesús Múhameð almáttugur!
Biskupsstofa brást illa við auglýsingunni frá Símanum þar sem notuð er síðasta kvöldmáltíð Krists til að auglýsa þriðju kynslóð af farsímum. Margir hafa víst látið í sér heyra og kvartað yfir þessu guðlasti. Biskupsstofa hefur hins vegar ekkert tjáð sig um birtingar skopmynda af Múhameð enda kannski ekki í hennar verkahring. Ég hef hins vegar áhyggjur af almenningi sem tjáir sig opinskátt um þessar skopmyndir og telur þær eiga rétt á sér vegna þess að annars væri vegið að tjáningarfrelsi fólks. Nær tjáningarfrelsið ekki líka til kristinnar trúar? Er allt í lagi að gera grín að annarra manna trúbrögðum en ekki okkar eigin? Þið sem kvartið yfir auglýsingu Símans, skiljið þið kannski núna hvernig múslimunum líður yfir skopmyndum af Múhameð?
Persónulega finnst mér þessi auglýsing frábærlega góð og ég hló mikið að henni í fyrsta sinn sem ég sá hana og hlæ enn í hvert sinn sem hún birtist. Ég er heldur ekki á móti því í sjálfu sér að skopmyndir séu gerðar af Múhameð, svo lengi sem það er gert í góðu. En ég er á móti þeim tvískinnungshætti að mótmæla öðru en ekki hinu!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 2. september 2007
Er byggingarsaga okkar ómerkileg?
Í dag fór ég niður á Austurvöll til að sjá og heyra í snillingunum í Sniglabandinu og gerði mér þá grein fyrir því að fallegasta svæðið í miðbæ Reykjavíkur er Lækjargatan, Skólabrúin og Pósthússtræti, þar sem við þær götur sýnist mér að séu fæstir hryllingskumbaldar. Þó má nefna nokkra, eins og Glitnishúsið og Iðuhúsið við Lækjargötu, Kirkjuhvol við Skólabrú og eystri hluta Landsbankahússins við Pósthússtræti. Þessi hús eru virkileg lýti á annars fallegri götumynd.
Nú er svo komið að búið er að gefa veiðileyfi á hálfan Laugaveginn eða svo, frægust í augnablikinu eru auðvitað hús nr. 4 og 6, og ég hugsa til þess með gubbuna í hálsinum hvað gerist ef byggðir verða steinkassar, háhýsi og / eða glerhús við Austurstræti 22. Við höfum reyndar ekkert fengið að vita hvað verður um húsið á horninu, þar sem Ópera var og fleira. Tókst að bjarga einhverju þar eða verður það líka rifið?
Það er alltaf þannig hér á landi að peninga- og gróðrasjónarmiðin eru látin ráða í skipulagsmálum. Ég veit ekki um neitt annað land í Evrópu þar sem verktakar fá öll völd varðandi hvað á að byggja á svæðum þar sem var byggð fyrir. Verktakarnir eru á góðri leið með að eyðileggja nánast eina hverfið sem við eigum þar sem eru hús eldri en hundrað ára.
Ég hef séð árangurinn af því þegar menn sjá að sér og hætta við að rífa gamalt hús og gera það upp í staðinn. Sem dæmi má nefna hús við Bergstaðastrætið sem áætlanir voru um að rífa vegna þess að það var í slæmu ástandi og orðið bæli fíkniefnaneytenda. Núna er þetta hið reisulegasta og glæsilegasta hús og komið upp úr kafinu að það er 111 ára gamalt.
Við eigum fá gömul hús sem eftir standa. Förum að dæmi annarra Evrópuþjóða og varðveitum byggingarsögu okkar, eða það sem eftir er af henni. Víða hafa miðbæirnir verið endurreistir í upprunalegri mynd eftir að hafa verið lagðir í rúst í seinni heimsstyrjöldinni. Svo mikils virði er byggingarsaga annarra þjóða þeim. Er okkar eitthvað ómerkilegri?
![]() |
Austurstræti 22 rifið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Spurt er
Tónlistarspilari
165 dagar til jóla
Tenglar
Spænska
- Frú Mínerva Málaskóli
Myndir frá Kosta Ríka
Hér eru myndaalbúm með myndum frá Kosta Ríka í júní 2007.
Lindy Hop
Þetta er dansINN!
- Heimasíðan okkar
- Hellzapoppin So you think you can dance!!
- Showdown 2006 Ég get þetta sko alveg...
Myndaalbúm
Bloggvinir
-
andreaolafs
-
hugdettan
-
astar
-
bjorkv
-
bleikaeldingin
-
brylli
-
fitubolla
-
neytendatalsmadur
-
gurrihar
-
hallarut
-
handtoskuserian
-
hlynurh
-
jenfo
-
jensgud
-
johannbj
-
jonbjarnason
-
hugsadu
-
lauola
-
larahanna
-
mammzla
-
mariataria
-
manisvans
-
svarthamar
-
runavala
-
soley
-
smjattpatti
-
jam
-
svenni
-
toshiki
-
truno
-
vefritid
-
hallormur
-
thorgnyr
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar