Færsluflokkur: Dægurmál
Miðvikudagur, 5. september 2007
Jesús Múhameð almáttugur!
Biskupsstofa brást illa við auglýsingunni frá Símanum þar sem notuð er síðasta kvöldmáltíð Krists til að auglýsa þriðju kynslóð af farsímum. Margir hafa víst látið í sér heyra og kvartað yfir þessu guðlasti. Biskupsstofa hefur hins vegar ekkert tjáð sig um birtingar skopmynda af Múhameð enda kannski ekki í hennar verkahring. Ég hef hins vegar áhyggjur af almenningi sem tjáir sig opinskátt um þessar skopmyndir og telur þær eiga rétt á sér vegna þess að annars væri vegið að tjáningarfrelsi fólks. Nær tjáningarfrelsið ekki líka til kristinnar trúar? Er allt í lagi að gera grín að annarra manna trúbrögðum en ekki okkar eigin? Þið sem kvartið yfir auglýsingu Símans, skiljið þið kannski núna hvernig múslimunum líður yfir skopmyndum af Múhameð?
Persónulega finnst mér þessi auglýsing frábærlega góð og ég hló mikið að henni í fyrsta sinn sem ég sá hana og hlæ enn í hvert sinn sem hún birtist. Ég er heldur ekki á móti því í sjálfu sér að skopmyndir séu gerðar af Múhameð, svo lengi sem það er gert í góðu. En ég er á móti þeim tvískinnungshætti að mótmæla öðru en ekki hinu!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 2. september 2007
Er byggingarsaga okkar ómerkileg?
Í dag fór ég niður á Austurvöll til að sjá og heyra í snillingunum í Sniglabandinu og gerði mér þá grein fyrir því að fallegasta svæðið í miðbæ Reykjavíkur er Lækjargatan, Skólabrúin og Pósthússtræti, þar sem við þær götur sýnist mér að séu fæstir hryllingskumbaldar. Þó má nefna nokkra, eins og Glitnishúsið og Iðuhúsið við Lækjargötu, Kirkjuhvol við Skólabrú og eystri hluta Landsbankahússins við Pósthússtræti. Þessi hús eru virkileg lýti á annars fallegri götumynd.
Nú er svo komið að búið er að gefa veiðileyfi á hálfan Laugaveginn eða svo, frægust í augnablikinu eru auðvitað hús nr. 4 og 6, og ég hugsa til þess með gubbuna í hálsinum hvað gerist ef byggðir verða steinkassar, háhýsi og / eða glerhús við Austurstræti 22. Við höfum reyndar ekkert fengið að vita hvað verður um húsið á horninu, þar sem Ópera var og fleira. Tókst að bjarga einhverju þar eða verður það líka rifið?
Það er alltaf þannig hér á landi að peninga- og gróðrasjónarmiðin eru látin ráða í skipulagsmálum. Ég veit ekki um neitt annað land í Evrópu þar sem verktakar fá öll völd varðandi hvað á að byggja á svæðum þar sem var byggð fyrir. Verktakarnir eru á góðri leið með að eyðileggja nánast eina hverfið sem við eigum þar sem eru hús eldri en hundrað ára.
Ég hef séð árangurinn af því þegar menn sjá að sér og hætta við að rífa gamalt hús og gera það upp í staðinn. Sem dæmi má nefna hús við Bergstaðastrætið sem áætlanir voru um að rífa vegna þess að það var í slæmu ástandi og orðið bæli fíkniefnaneytenda. Núna er þetta hið reisulegasta og glæsilegasta hús og komið upp úr kafinu að það er 111 ára gamalt.
Við eigum fá gömul hús sem eftir standa. Förum að dæmi annarra Evrópuþjóða og varðveitum byggingarsögu okkar, eða það sem eftir er af henni. Víða hafa miðbæirnir verið endurreistir í upprunalegri mynd eftir að hafa verið lagðir í rúst í seinni heimsstyrjöldinni. Svo mikils virði er byggingarsaga annarra þjóða þeim. Er okkar eitthvað ómerkilegri?
Austurstræti 22 rifið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. september 2007
Sendiherrarnir
Nú auglýsi ég eftir aðstoð til að setja inn myndband beint af YouTube. Mér tekst það ekki hvernig sem ég reyni. Hvernig gerir maður þetta eiginlega?? Mig langaði nefnilega að setja Sendiherrana inn.
Svo hef ég sett inn spilara hér til vinstri og lag með spænskri hljómsveit sem er ótrúlega heitt, sérstaklega ef maður skilur textann...
Og þar sem árið er nú meira en hálfnað finnst mér rétt að fara að telja dagana til jóla, þið getið fylgst með því hér. Það getur nefnilega ýmislegt gerst fram að jólum, skal ég segja ykkur .
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 31. ágúst 2007
Get ég fengið styrk...
... til að flytjast til heitara og rakara lands? Ég er viss um að það er ódýrara fyrir ríkið að senda mig til Mið-Ameríku og setja mig á bætur þar en borga fyrir mig allar leysermeðferðirnar sem ég þarf að fara í til að laga á mér húðina. Gróft reiknað eyðir ríkið um 200 þúsund krónum á ári í þetta, nema ég láti líka taka fitukirtlana á enninu, þá er það meira. Fyrir þessa upphæð get ég lifað í næstum ár í Kosta Ríka. Er ekki peningunum betur varið þannig?
Hvort er betra, að áreita húðina með rándýrum tækjum eða leyfa henni að jafna sig á náttúrulegan hátt, fyrir sama pening?
Ég auglýsi hér með eftir styrkjum, ég tek við hvaða peningum sem er. Ef þið viljið vita eitthvað um landið áður en þið ákveðið að gefa mér peninga, hlustið þá á Rás 1 næstu tvo laugardaga klukkan 16:10 og á www.ruv.is til að heyra þáttinn frá laugardeginum var.
Þetta lag var rosavinsælt á skiptinemaárinu mínu og þar sem mér tekst ekki að setja það inn í spilara þá ákvað ég að setja inn myndbandið. Ferlega skemmtilegt lag:
http://www.youtube.com/watch?v=xV924pWpMDc
Dægurmál | Breytt 1.9.2007 kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 29. ágúst 2007
Og svo fékk ég annan reikning!
Það er greinilegt að það borgar sig frekar að kaupa flugmiða til Mið-Ameríku og vera þar í mánuð en fara til Spánar, sem annar hver Íslendingur fer til í fríinu sínu einhvern tímann á ævinni, og vera í þrjár vikur. Ég var að fá vísareikninginn frá síðustu tveimur vikunum þar og JÆTS! Og ég borgaði ekki fyrir hótel! Reyndar borgaði ég 150 evrur fyrir íbúðina í Talamanca, en það er ekki nema brotabrot af því sem ég þarf að borga núna um mánaðamótin.
Og ég sem var nýbúin að fá rukkun frá LÍN upp á hundrað fjólubláa.
Jæja, ef ég dett á hausinn skulum við vona að ég fái ekki meira en vægan heilahristing...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. ágúst 2007
Ég fékk reikning!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 20. ágúst 2007
Vetrarfrí
Nú fara grunnskólarnir að byrja og minn er svo heppinn að hafa fengið inni á frístundaheimili (enn er ég heppin). Upp úr því fór ég á heimasíðu skólans til að athuga hvenær við ættum að mæta, eftir ábendingu frá kunningjaforeldrum mínum úr sama skóla, þar sem ég hafði enga orðsendingu fengið frá skólanum. Þar fékk ég upplýsingarnar sem mig vantaði og fór að skoða skóladagatalið. Þá fékk ég áfallið: Þetta árið er vetrarfríið heil vika um mánaðamótin október-nóvember. Mitt vetrarfrí er tveir dagar um miðjan október. Sér einhver eitthvað athugavert við þetta?
Ég auglýsi hér með eftir úrræðum fyrir börn sem þurfa að fara í vetrarfrí í heila viku á meðan foreldrar þeirra þurfa að vinna og eldri systkini í framhaldsskóla eru á fullu í skólanum, svo þau þurfi ekki að hendast hingað og þangað í pössun í heila viku!
Eru ekki forsendurnar fyrir vetrarfríi í skólum brostnar þegar aðrir heimilismenn eru ekki í fríi á sama tíma?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 19. ágúst 2007
Blákaldur veruleikinn
Því laust niður í mig rétt í þessu að á morgun hefst blákaldur veruleikinn á ný. Við kennararnir erum svo heppnir að eiga frí í þrjá mánuði á ári, ef við tökum ekki að okkur fjarkennslu á sumrin, og eftir það byrjar stressið aftur. Við vinnum svo sannarlega af okkur fríið á veturna.
En á morgun hefst semsagt önnin með kennarafundi og eftir það verður ekki aftur snúið, stressið heldur innreið sína í líf mitt. Maður hefði haldið að eftir þriggja mánaða afslöppun væri maður vel í stakk búinn til að takast á við annríkið en það er svo undarlegt að það hefur þvert á móti gert mig næmari fyrir stressinu.
Það fyrsta sem ég þurfti að takast á við var að finna pössun fyrir son minn fyrri hluta vikunnar. Ég byrja að vinna á morgun en skólinn hans byrjar ekki fyrr en á fimmtudaginn. Þar sem ég er svo heppin (og nú skrifa ég enn undir grein mína sem birtist á mbl.is þann 4. apríl og lesa má hér) að vera kennari þá er ég í fríi nánast á sama tíma og sonur minn, en það eru ekki allir svo heppnir. Í sumar varð ég vör við miklar vangaveltur, reddingar og stress hjá fólki í kringum mig þegar það var að reyna að púsla saman sumrinu. Foreldrar skiptust á að taka sér frí í vinnunni, ömmur og afar voru nýtt til hins ýtrasta, frænkum og frændum á unglingsaldri var borgað fyrir að passa, o.s.frv. Ég veit sannarlega ekki hvernig einstæðir foreldrar með ung börn á grunnskólaaldri fara að ef þeir eru ekki kennarar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 2. ágúst 2007
Spánverjar
Jæja, þá er dvöl mín hér á Spáni á enda og þar með útstáelsi þessa sumars. Mánuður + þrjár vikur er ansi hátt hlutfall af íslensku sumri. Kannski ég verði meira heima næsta sumar, ef ég helst þá við... En svo þeir sem hafa ferðast til Spánar viti þá er Spánn svo miklu meira en sól og strendur og ég hvet sólardýrkendur til að skoða landið frá annarri hlið næst. Það er svo mikil menning hér og menningararfurinn heillandi, auk þess sem landið er stórt og þó hér séu margar strendur þá er svo miklu meira af fjöllum, skógum, þorpum og fleira sem vert er að kynnast.
Spánverjar eru samt á köflum furðulegt fólk. Ég hef unnið með Spánverjum og mér finnst leiðinlegt að segja það en mér fannst þeir upp til hópa latir. Þeir höfðu sama og ekkert frumkvæði og notuðu hvert tækifæri til að setjast niður, fá sér kaffi, lesa blaðið eða reykja. En um leið og yfirmaðurinn birtist þá fóru þeir á fullt. Svo voru þeir líka síkvartandi: Ég er svo þreyttur / þyrstur / svangur / sveittur, mér er svo heitt / kalt / illt. Maður átti ekki að venjast þessu hjá Íslendingum. Ég finn líka greinilega fyrir þessu hér, á veitingastöðum og börum sérstaklega, en líka á skrifstofum og alls staðar þar sem fólk þarf að afgreiða viðskiptavini. Reyndar skilst mér að það skipti máli hvaðan fólk er, í Kastilíu og Galisíu er fólk víst þjónustulundaðra.
Svo er það þetta með síestuna. Ég held að það tengist letinni. Fólk vinnur frá svona 9 eða 10 til 1 eða 2 og svo frá 5 til 8. Þar af leiðandi virðast manni búðirnar alltaf vera lokaðar og sumar búðirnar eru hreinlega lokaðar allan fyrripartinn, eða er þeim bara lokað snemma? Ég veit það ekki. Það virðist stundum fara eftir því hverju fólk nennir. En yfirleitt eru þær opnar milli 10 og 1:30 og svo aftur frá 5 til 8. Þetta finnst okkur ekki langur afgreiðslutími. Önnur neikvæð afleiðing af þessu er að fólk sér varla börnin sín. Skólinn er frá morgni til klukkan 5 og þá þurfa oft barnapíur að sækja þau og fara með þau á leikvöllinn þangað til foreldrarnir koma heim. Þau sjást þá í svona 1-2 klukkutíma eða þangað til þau fara að sofa. Ekki mjög fjölskylduvænt kerfi.
Ég þurfti að fara til læknis um daginn vegna þrálátrar hálsbólgu. Það var laugardagur svo ég fór á bráðavaktina á opinberum spítala. Það gekk reyndar frekar hratt fyrir sig, ég var heppin að það var fátt fólk að bíða. Ég var auðvitað spurð um sjúkratryggingakortið mitt en ég gat upplýst konuna stolt um það að svoleiðis notuðum við ekki á Íslandi, allir eru hvort sem er sjúkratryggðir. Svo hún tók niður nafn og heimilisfang og svo fékk ég að bíða eftir lækninum. Eftir stutta stund var kallað á mig og ég lýsti einkennum mínum fyrir lækni sem skoðaði hálsinn og skrifaði eitthvað hjá sér. Síðan þurfti ég að fara fram aftur og bíða meira. Skömmu seinna var kallað á mig aftur og þá fékk ég að tala við annan lækni sem spurði mig nokkurn veginn sömu spurninga og skrifaði lyfseðil handa mér. Það var annars vegar upp á pensilín og hins vegar upp á Parasetamól. Ég sagðist nú ekki þurfa Parasetamól þar sem ég hafði enga verki nema þennan í hálsinum. Engu að síður fékk ég lyfseðil upp á Parasetamól, í landi þar sem allt fæst án lyfseðils.
Síðan fór ég heim, og borgaði ekki neitt. Nú er ég að vona að Ísland og Spánn séu með einhvern samning um sjúkratryggingar og að ég fái ekki sendan háan reikning heim til mín eftir mánuð. Í apótekinu fékk ég 12 bréf af pensilíni í duftformi og borgaði (ég hélt fyrst að lyfjafræðingurinn væri að grínast) 1,36 evrur. Þetta er rúmlega 100 kall. Seinna um daginn uppgötvaði ég reyndar að ég hafði fengið of fá bréf, því ég átti að taka þetta þrisvar á dag í viku, en 12 bréf duga ekki nema í 4 daga, það þarf engan lækni til að sjá það. En á lyfseðlinum stóð 12 bréf svo lyfjafræðingurinn sagði áhyggjufullur að ég þyrfti að borga fyrir restina fullu verði. Þar sem ég nennti ekki að fara aftur á spítalann til að fá annan lyfseðil ákvað ég að borga bara. Það voru 3,40 evrur. Ég hætti að hlæja og fór að hugsa um lyfjaverð á Íslandi. Hvers vegna í ósköpunum er lyfjaverð á Íslandi margfalt hærra en á Spáni??
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 26. júlí 2007
Talamanca, Spáni
Dvölin í hundraðmannaþorpinu Talamanca var í senn afslappandi og ánægjuleg. Ég get virkilega mælt með afslöppunarferð í þetta miðaldaþorp, en fyrstu sögur sem fara af byggð þar eru frá um 960. Ég segi afslöppunarferð, því það er ekki mikið við að vera þar. Það er torgið þar sem barinn er. Þar er allt fullt af fólki fyrir utan um kaffileytið, karlarnir að drekka vermút og spila dómínó, konurnar að gera eitthvað annað. Þegar ég segi "fullt af fólki" þá á ég við svona fjögur eða fimm borð sem fólk raðar sér í kringum. Svo er það búðin við hliðina, en hún var opnuð fyrir um mánuði síðan, þar er líka hægt að sitja fyrir utan og drekka kaldan bjór eða kaupa sér vínflösku á eina eða tvær evrur og þjóra. Þó að flest sé dýrara þar en í súpermarkaðnum í Barselóna þá er bjórinn ódýrari en á barnum og vinsælt að kaupa hann þar og setjast niður fyrir utan.
Reyndar er allt frekar dautt alla vikuna, enda margir sem búa í Barselóna og koma heim yfir helgina. Eða eiga jafnvel sumarhús þar og skreppa uppeftir um helgar. Um helgar lifnar þannig aðeins yfir mannlífinu. Núna um helgina var reyndar stórviðburður. Á hinu torginu, þessu við kirkjuna, spilaði Simfóníuhljómsveit unga fólksins í Barselóna. Bókstaflega allir fóru að hlusta, og jafnvel þótt maður væri bara á svölunum heima hjá sér þá heyrði maður nánast allt sem fram fór, sama hvar í þorpinu maður bjó. Ég fór að hlusta. Úff, ekki var hún nú beysin. Allt frekar vanstillt og hljómaði falskt. Eiður Smári Guðjohnsen kvartaði víst yfir agaleysi í fótboltaliðinu sínu, Barselóna, um daginn. Það var auðheyrt að agaleysið er víðar en í fótboltanum.
Annað sem hægt er að gera í Talamanca er að fara í göngutúra. Þeir eru samt allir niður á við, sem þýðir að það þarf að fara upp aftur . Það er hægt að fara niður að á, og svo er hægt að fara niður að á... og líka niður að á... og svo niður að á. Svo er reyndar líka hægt að fara í hina áttina og sjá nokkrar gamlar minjar, t.d. leirofna og vatnsmyllu. En hvert sem maður fer, endar gönguferðin á erfiðri göngu upp í móti.
En íbúðin sem við gistum í var mjög flott, í húsi frá byrjun 18. aldar með metersþykkum, hlöðnum steinveggjum. Það var meira að segja lurkur á stigapallinum sem hefur verið notaður sem lukt í árdaga, svona ef ske kynni að rafmagnið færi... Ég ætla að setja inn myndir um leið og ég fæ þær sendar, bæði af húsinu og þorpinu. Á meðan getið þið skoðað þetta, ef þið hafið áhuga: http://www.calantonieta.tk Það þarf að tvísmella á takkana neðst og svo þarf að fara neðar og smella á þríhyrninginn (spila). Og verðið? Fáránlegt! 25 evrur á mann fyrir nóttina...
Dægurmál | Breytt 27.7.2007 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Spurt er
Tónlistarspilari
325 dagar til jóla
Tenglar
Spænska
- Frú Mínerva Málaskóli
Myndir frá Kosta Ríka
Hér eru myndaalbúm með myndum frá Kosta Ríka í júní 2007.
Lindy Hop
Þetta er dansINN!
- Heimasíðan okkar
- Hellzapoppin So you think you can dance!!
- Showdown 2006 Ég get þetta sko alveg...
Myndaalbúm
Bloggvinir
- andreaolafs
- hugdettan
- astar
- bjorkv
- bleikaeldingin
- brylli
- fitubolla
- neytendatalsmadur
- gurrihar
- hallarut
- handtoskuserian
- hlynurh
- jenfo
- jensgud
- johannbj
- jonbjarnason
- hugsadu
- lauola
- larahanna
- mammzla
- mariataria
- manisvans
- svarthamar
- runavala
- soley
- smjattpatti
- jam
- svenni
- toshiki
- truno
- vefritid
- hallormur
- thorgnyr
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar