Laugardagur, 3. nóvember 2007
Saga af rusli
Ég flokka ruslið mitt. Það er ekki svo mikið mál, í alvöru. Það hjálpar reyndar að eiga bíl, til að skella ruslinu í og keyra það í Sorpu. En það er ekki nauðsynlegt. Ekki lengur. Nú er hægt að fá svona tunnu sem maður setur í garðinn hjá sér. Og hún er líka tæmd! Ég man þegar borgin bauð upp á endurvinnslutunnur en enga tæmingu. Undarlegt að þær skyldu ekki njóta vinsælda... En nú er það Gámaþjónustan sem býður upp á þetta.
- Allir matarafgangar sem eru ekki kjöt eða fiskur fara í moltutunnu sem Reykjavíkurborg býður
á kaupleigu. Tíu þúsund kall á fimm árum!
- Dagblöðin fara í endurvinnslutunnuna. Reyndar fæ ég svo mikið af þeim að ég verð að fara öðru hverju með þau í gáminn hérna í næstu götu. Annars myndi tunnan fyllast á viku. En þangað til safnast þau fyrir í blaðakörfunni og þegar hún er full er dreginn fram svartur ruslapoki sem er geymdur einhversstaðar í íbúðinni.
- Mjólkur- og safafernurnar fara líka í tunnuna. Þær geymast í ruslaskápnum. Á þessu heimili eru það aðallega safafernur, mjólk er ekki vinsæl í magana á heimilinu. Reyndar aðallega stóra magann, sá litli er bara hræddur við lirfur.
- Bylgjupappi fer allur í endurvinnslutunnuna, kemur ekki svo mikið inn af honum.
- Plastpokar og -ílát með sérstökum merkjum safnast í poka á eldhúsgólfinu þangað til hann er orðinn nógu fullur til að fara í tunnuna. Á sama stað lenda pappaumbúðir þangað til þær fá heimili.
- Glerkrukkur og niðursuðudósir fylla ruslaskápinn öðru hverju. Þegar plássið er lítið hengjast dósirnar utan á en glerið neyðist til að vera inni þangað til hægt er að gera sér bílferð í Sorpu. Það má ekki fara í tunnuna, öryggisins vegna.
- Drykkjarílát fara auðvitað í Sorpu þar sem hægt er að græða á þeim. Þau fara fyrst í ruslaskápinn en síðan í poka og inn í skápinn undir stiganum með útilegudótinu og rafmagnsofnunum. Þar fá þau síðan að dúsa þar til pokarnir eru orðnir nógu margir til að það taki því að gera sér bílferð í Sorpu. Það getur tekið allan veturinn. Á mínu heimili er glerið undan rauðvíni og bjór, dósirnar undan bjór og plastið undan Egils Kristal.
Þrátt fyrir allt þá er ekki mikil vinna í þessu. Ekki í að flokka, a.m.k. Ég býst við að ennþá sé betra að eiga bíl ætli maður að flokka fyrir alvöru. Hvað ætti maður annars að gera við glerið? Og dagblöðin? Þau eru þung. Ekki nema maður fari nánast daglega í gáminn. Kannski ættu auglýsendur að hætta að framleiða svona mikið af bæklingum, þeir fara hvort sem er ólesnir í ruslið. Það er hægt að fara með drykkjarílátin í stórar tunnur úti á götu, en þá er ekkert á þeim að græða.
Það ætti að vera skylda að hafa svona endurvinnslutunnu við hvert heimili. Ef ráðamönnum væri alvara með að hvetja fólk til að flokka rusl ættu þeir að hjálpa aðeins til.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 1. nóvember 2007
Hvíta beltið í höfn!
Það kom að því að ég næði hvíta beltinu í Ju jitsu. Það leit ekki vel út lengi vel, veikindi komu í veg fyrir að ég gæti hreyft mig án þess að fá hóstakast svo ég var frá æfingum í þrjár vikur. Þegar ég kom aftur fannst mér ég vera búin að gleyma öllu. En þessi ljúfi, en þó harði, þjálfari stappaði í mig og fleiri stálinu og það var ákveðið að prófa okkur í næsta tíma, sem var í dag.
Enn einum áfanga í lífinu náð!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 26. október 2007
?rugaduvlöt rumælS
Tölvan mín tók upp á því í morgun að skrifa afturábak. Ég hef lent í ýmsu með þær tölvur sem ég hef átt, en hingað til hefur ekkert toppað þetta! Og ég sem er nýbúin að fá nýja tölvu. Allt í einu komst ég ekki inn á kennsluforritið og skildi ekkert í því að það vildi ekki samþykkja lykilorðið mitt. Þá tók ég eftir því að bendillinn var alltaf á sama stað og mér datt í hug að skrifa inn lykilorðið afturábak. Og það gekk.
Ég sendi nemanda mínum í fjarnáminu eftirfarandi orðsendingu:
"...ilfak .62 ...unikilbangua í kabárutfa rafirks ním navlöt ,uðakasfA .aráL læS"
Svo sat ég bara og grenjaði úr hlátri. Var einhver að tala um að hafa farið öfugu megin fram úr rúminu í morgun? Það hefur allavega fengið alveg nýja merkingu fyrir mér...
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 20. október 2007
Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga
Þegar ég var búin með fæðingarorlofið mitt hafði ég ákveðið að fara í skóla. Ég átti smá pening til að lifa af fram að áramótum, ekki mikið, ég var nægjusöm í þá daga. Það var nóg fyrir fjóra mánuði, en ekki meira. Ég var nefnilega svo heppin að hafa keypt mína fyrstu íbúð á 4,5 milljónir, í þá góðu gömlu daga... Ég átti semsagt íbúð og þurfti ekki að borga mikið af henni.
Ég ákvað semsagt að fara í skóla, átti smá pening og var búin að fá vilyrði fyrir námsláni. Allt í góðu. Vandamálið var bara að fæðingarorlofinu lauk mánuði áður en ég átti að byrja í skólanum. Ég þurfti því að láta peninga sem rétt dugðu fyrir fjóra mánuði duga í fimm. Hókus pókus. Það eina sem mér datt í hug var að fara til ríkisskattstjóra og fá fyrsta hluta barnabótanna greiddan fyrirfram. Ég var nefnilega svo óheppin að fæða barn í lok janúar, svo barnabætur fóru ekki að berast mér fyrr en tæpu ári síðar.
Að sjálfsögðu var þetta ekki hægt, mér var bent á félagsþjónustuna en mér fannst ekki taka því fyrir einn mánuð. Síðar komst ég að því að það hefði ekki verið glæta að ég fengi aðstoð frá félagsþjónustunni þar sem ég átti íbúð, bíl og smá pening. Til að fá aðstoð frá henni máttu ekki eiga NEITT.
Nú hef ég verið að grúska í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og ég get hvergi séð neitt um það hver skilyrðin eru til að fá aðstoð. Þar segir m.a.:
"I. kafli. Markmið laganna.
1. gr. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því
a. að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti,
b. að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna,
c. að veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi,
d. að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.
Við framkvæmd félagsþjónustunnar skal þess gætt að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar."
Í IV. kafla, Almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu, er talað um að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð. Síðan er talað um hver á rétt til þess, þ.e. þeir sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, hvað skuli gera ef einhver þarf á aðstoð að halda utan sveitarfélags síns og um rétt erlendra ríkisborgara. Hvergi er talað um að viðkomandi megi ekki eiga neinar eignir. Eða hvað? Ef einhver fróðari en ég getur bent mér á hvar það stendur skal ég fegin lesa þá málsgrein.
Sá sem á eigin íbúð borgar venjulega minna í afborganir en hann / hún myndi borga í leigu. Það er skiljanlegt ef viðkomandi borgar fulla leigu að hann / hún nái ekki endum saman. Sá eða sú sem nær ekki endum saman ÞRÁTT FYRIR að vera í eigin húsnæði er enn verr staddur / stödd. Svo ég tali nú ekki um hvað bíll getur verið nauðsynlegur hlutur þegar maður er með börn til að geta stundað hvaða vinnu sem er.
Hér er brotalöm í kerfinu. Það sér hver maður. Við skulum bara vona að núverandi félagsmálaráðherra skoði málið og breyti þessu. Nú eða þá Björk Vilhelms. Ég treysti þeim báðum til þess, svo lengi sem þær vita af vandamálinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 14. október 2007
Skóladagheimili
Ég er með nokkrar hugmyndir handa Degi og co. Helst vil ég fá einkafund með honum og ræða þetta undir fjögur augu, en hér er ein hugmynd: Meira samstarf milli ÍTR og grunnskólanna í skóladagheimilamálum og afslátt fyrir einstæða foreldra og aðra sem hafa aðeins einfaldar tekjur.
Mig rámar eitthvað í að skóladagheimili hafi verið til hér á árum áður. Ég var bara barn þá en ég man að það hafði einhvern svona neikvæðan blæ yfir sér. Ég þekkti aldrei neinn sem var á skóladagheimili en mamma vinkonu minnar vann á einu þeirra. Þess vegna fékk hún að fara þangað stundum. Hún var líka einstæð.
Skóladagheimilinn hafa ekki lengur neikvæðan blæ yfir sér. Nú þykir sjálfsagt að börnin fari á skóladagheimili eftir skóla, enda fáar mömmur heima við á daginn. Tímarnir hafa breyst. Sem betur fer. Næsta skref er að gera gjaldtöku sanngjarna. Mér finnst nóg að borga formúgu fyrir hádegismatinn. Ég hef áður skrifað grein um gjaldtöku skólanna, nú vona ég að ný borgarstjórn fari að gera eitthvað í þessum málum. Þetta er ekki sanngjarnt, skólinn á að heita gjaldfrjáls en fyrir einstæða foreldra er hann dýrari en leikskólinn.
![]() |
Félagshyggjan er komin til valda í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 13. október 2007
Ekki blogg um sprengingu
Þrátt fyrir að mér þyki það lofa góðu að borgarstjórn hægrimanna sé sprungin og í staðinn sé komið fólk sem hugsar um félagsmálin fólksins vegna þá ætla ég ekki að blogga um það. Ónei. Ég ætla að blogga um mig. Ef ég gef sjálfri mér ekki athygli, hver gerir það þá? Ég er í svokölluðu haustfríi núna, það eru tveir aukadagar. Sonur minn fær heila viku! Sem þýðir meiri vinnu fyrir mig. Niðurstaðan er sú að haustfríin jafna sig út og eru óþörf. Betra bara að sleppa þeim. Það er ekki eins og börnin njóti fría þegar foreldrarnir þurfa að vinna og þau þurfa að hendast á milli staða í pössun. Síðustu tveir dagar hafa samt farið í fjarkennsluna, ekki frí.
Það er gráðun í ju jitsu á morgun. Mér finnst ég ekki vera alveg tilbúin. Kann þetta ekki alveg allt. Þeir segja samt að prófið sé eins og einkatími, maður fær alla athyglina. Þessar elskur þarna hjá Sjálfsvarnarskólanum eru yndislegar. Kannski ég bíði fram á fimmtudag. Þetta er bara hvíta beltið...
Á morgun ætla ég á kaffihús og fá mér espresso og stóra súkkulaðikökusneið og Erik fær litla kók og kökuna. Hver vill koma með?
P.S. Skoðanakönnunin hér til hliðar hefur tilgang. En það þarf AÐEINS fleiri þátttakendur, svo endilega segið ykkar skoðun!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
Spurt er
Tónlistarspilari
165 dagar til jóla
Tenglar
Spænska
- Frú Mínerva Málaskóli
Myndir frá Kosta Ríka
Hér eru myndaalbúm með myndum frá Kosta Ríka í júní 2007.
Lindy Hop
Þetta er dansINN!
- Heimasíðan okkar
- Hellzapoppin So you think you can dance!!
- Showdown 2006 Ég get þetta sko alveg...
Myndaalbúm
Bloggvinir
-
andreaolafs
-
hugdettan
-
astar
-
bjorkv
-
bleikaeldingin
-
brylli
-
fitubolla
-
neytendatalsmadur
-
gurrihar
-
hallarut
-
handtoskuserian
-
hlynurh
-
jenfo
-
jensgud
-
johannbj
-
jonbjarnason
-
hugsadu
-
lauola
-
larahanna
-
mammzla
-
mariataria
-
manisvans
-
svarthamar
-
runavala
-
soley
-
smjattpatti
-
jam
-
svenni
-
toshiki
-
truno
-
vefritid
-
hallormur
-
thorgnyr
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar